Á ársfundum Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, sem haldnir voru samtímis í gær, var staðfestur samningur um samruna sjóðanna frá og með 1. júní 2005. Að ársfundunum loknum var haldinn stofnfundur hins nýja sjóðs, þar sem samþykkt var að hann fái nafnið Gildi - lífeyrissjóður.
Áður höfðu stjórnir beggja lífeyrissjóða undirritað samning um samruna sjóðanna, en viðræðunefnd beggja sjóða hefur unnið að málinu frá því í apríl 2004.
Gildi lífeyrissjóður tekur við öllum eignum, réttindum og skuldbindingum Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna frá og með 1. júní nk. Frá þeim tíma munu sjóðfélagar ávinna sér réttindi samkvæmt nýju aldurstengdu réttindakerfi, sem staðfest var á stofnfundi Gildis lífeyrissjóðs í gær.
Gildi lífeyrissjóður verður þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins með um 22 þúsund virka sjóðfélaga. Áætluð eign sjóðsins 1. júní nk. er 155 milljarðar króna.
Í stjórn Gildis lífeyrissjóðs voru kjörnir: Ari Edwald, formaður, Helgi Laxdal, varaformaður, Friðrik J. Arngrímsson, Höskuldur H. Ólafsson, Konráð Alfreðsson, Sigurður Bessason, Sveinn Hannesson, og Þórunn Sveinbjörnsdóttir.
Árni Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs sjómanna, verður framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs.
Sjóðurinnn verður til húsa í núverandi húsnæði Lífeyrissjóðsins Framsýnar, að Sætúni 1 í Reykjavík.