Gagnagrunnur um lífeyrisgreiðslur og alþjóðleg samanburðarrannsókn

Landssamtök lífeyrissjóða hafa ákveðið að stofna gagnagrunn með upplýsingum um áunnin lífeyrisréttindi allra sjóðfélaga í íslenskum lífeyrissjóðum og viðbótarlífeyrissparnaði. Upplýsingarnar komi úr fimm gagnagrunnum sem reknir eru á vegum lífeyrissjóðanna og frá öðrum vörsluaðilum lífeyrissparnaðar.

Markmiðið er að geta reiknað út áunnin og áætluð lífeyrisréttindi hvers sjóðfélaga yfir alla starfsævi hans og fengið þannig heildarmynd af þróun lífeyriskerfisins, bæði lífeyrissjóðanna, séreignarsparnaðar og áætlaðra greiðslna Tryggingastofnunar ríkisins (TR). Jafnframt verði unnt að greina mögulega veikleika í kerfinu, s.s. hjá einstökum hópum út frá aldri, kyni, menntun eða starfsgrein.

Fyllsta öryggis verður gætt við vörslu gagnagrunnsins og trúnaðar gætt við meðferð persónugreinanlegra upplýsinga. Grunnurinn verður ekki notaður í viðskiptalegum tilgangi.

Fyrirætlanir LL hafa þegar verið ræddar við nokkra hagsmunaaðila, s.s. ráðuneyti, samtök á vinnumarkaði, tryggingastærðfræðinga, Hagstofuna og Fjármálaeftirlitið. Hafa undirtektir verið á einn veg. Allir þessir aðilar vilja eiga aðild að verkefninu og telja að slíkur gagnagrunnur gæti orðið mjög gagnlegt hjálpartæki við rannsóknir og greiningu á þróun lífeyriskerfisins og áhrifum breytinga á réttindakerfum, lífeyri TR, skattareglum og tryggingafræðilegum forsendum, s.s. lengingu meðalævi og breyttrar örorkutíðni. Þess utan má gera ráð fyrir að vísindasamfélagið geti haft ýmis not af slíkum gagnagrunni.

Í tengslum við undirbúning að stofnun gagnagrunnsins var að frumkvæði Fjármálaeftirlitsins sótt um þátttöku í fjölþjóðlegri rannsókn Efnahags- og þróunarstofnunarinnar (OECD) á væntum lífeyri (Retirement Savings Adequacy). Evrópusambandið veitir styrki til verkefnisins til ríkja innan Evrópska efnahagssvæðisins og ákvað í apríl 2013 að mæla með Íslandi sem þátttökulandi með FME sem styrkþega og hafa yfirumsjón með rannsókninni. Væntanlegur styrkur nemur 80% af kostnaðaráætlun verkefnisins. Gert er ráð fyrir að undirrita samning um styrkinn innan tveggja vikna. Gagnagrunnurinn mun auðvelda rannsóknina og gera niðurstöðurnar mun nákvæmari en kostur er á hjá öðrum þjóðum sem nota úrtaksaðferðir.

Stefán Halldórsson hefur sem sérstakur starfsmaður í umboði réttindanefndar unnið undirbúningsvinnu að stofnun gagnagrunnsins og framkvæmd rannsóknarinnar. Björn Z. Ásgrímsson mun fyrir hönd FME hafa yfirumsjón með verkefninu. Stefnt er að því að gagnagrunnurinn verði tilbúinn haustið 2013 og rannsókninni ljúki snemma árs 2014.