Fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs Austurlands sýknaður.

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur og sýknað Gísla Marteinsson, fyrrverandi framkvæmdastjóra  Lífeyrissjóðs Austurlands, af kröfu sjóðsins vegna lánveitinga til Burnham International á Íslandi h.f.

Lífeyrissjóður Austurlands gerði starfslokasamning við Gísla Marteinsson  í mars árið 2000, en Gísli hafði starfað sem framkvæmdastjóri hjá sjóðnum frá árinu 1987.

 

Lífeyrissjóðurinn krafði Gísla um skaðabætur fyrir það tjón sem sjóðurinn hefði orðið fyrir vegna lánveitingar til fyrirtækisins Burnham International á Íslandi h.f., sem Gísli stóð að fyrir hönd sjóðsins síðla árs 1999, en Burnham á Íslandi var tekið til gjaldþrotaskipta tverimur árum síðar og fékkst ekkert greitt upp í kröfu lífeyrissjóðsins við skiptin.

 

Talið var, að ákvæði í fyrrnefndum starfslokasamningi, sem kvað á um að aðilar samningsins ættu ekki kröfur hvor á annan umfram það sem í samningnum segði vegna starfslokanna, yrði ekki skilið svo að Lífeyrissjóður Austurlands gæti ekki átt skaðabótakröfu á hendur Gísla vegna stjórnunarstarfa hans.

 

 Þá var fallist á með lífeyrissjóðnum, að umrædd lánveiting hafi verið svo óvenjuleg að Gísli hafi átt að leggja ákvörðun um hana fyrir stjórn sjóðsins til samþykktar, en Gísli hafði ekki sýnt fram á að það hefði verið gert.

 

 Þegar málsatvik voru virt í heild var talið að meta yrði það Gísla til gáleysis, að hann hafi staðið að hinni umdeildu lánveitingu. Samkvæmt 23. gr. skaðabótalaga varð hann þó ekki gerður ábyrgur fyrir tjóni lífeyrissjóðsins.

 

Dómsorð Hæstaréttar voru því að dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 31. október 2003 skyldi vera óraskaður.