Frumvarpið um verðbréfalán lífeyrissjóða dagaði uppi á Alþingi.

Frumvarp fjármálaráðherra um breytingu á lífeyrissjóðalögunum dagaði upp á Alþingi síðustu dagana fyrir þingslit. Það  ákvæði frumvarpsins sem fjallaði um heimildir lífeyrissjóða til verðbréfalána, allt að 25% af hreinni eign, vakti einna mesta athygli og einnig töluverðar deilur utan þings sem innan.  Ákvæðin í frumvarpinu um verðbréfalán voru ekki sett inn að frumkvæði Landssamtaka lífeyrissjóða, sem töldu eðlilegt að gildistöku ákvæða vegna heimilda lífeyrissjóða til innlendra verðbréfalána  yrði frestað í ljósi aðstæðna á verðbréfamörkuðum og undirbúnings af hálfu sjóðanna, m.a. vegna  breytinga á  fjárfestingastefnum þeirra.

 

Þau ákvæði frumvarpsins sem varða heimildir lífeyrissjóða til að taka þátt í skipulegum lánamarkaði með verðbréf hlutu mesta umræðu í efnahags- og skattnefnd Alþingis, enda voru uppi  skiptar skoðanir í nefndinni um kosti þeirra og galla. Fram kom að tillöguna megi öðrum þræði rekja til óska Kauphallar Íslands.  

 

 Við umfjöllun efnahags- og skattanefndar Alþingis kom fram sú gagnrýni að leita hefði átt víðtækari samstöðu meðal samtaka lífeyrissjóðanna og aðila vinnumarkaðarins um þennan þátt frumvarpsins, áður en það var borið undir þingið. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands lögðu áherslu á að málinu yrði frestað fram á haust og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja stóð ekki að afgreiðslu þess.

 

Fjármálaeftirlitið taldi, með hliðsjón af varúðarsjónarmiðum, að heimild til að lána allt að 25% af hreinni eign væri of há og að undirbúa hefði mátt reglur fjármálamarkaðarins betur undir breytinguna. Samtök fjármálafyrirtækja lögðu til að heimild lífeyrissjóða til að lána verðbréf yrði frestað að því er varðar innlend hlutabréf þar til settar hafa verið sérstakar reglur um skortsölu og með þeim fyrirvara voru samtökin hlynnt afgreiðslu málsins.

 

Kauphöllin benti hins vegar á  að lífeyrissjóðirnir muni gegna lykilhlutverki á skipulegum lánamarkaði með verðbréf hér á landi þar sem þeir hafi yfir að ráða miklu af hlutabréfum og skuldabréfum sem eftirsótt eru til lántöku. Litið væri á þróun slíks markaðar sem mikilvægt skref í að samræma stefnu innan fyrirtækisins sem nú væri orðið hluti NasdaqOmX -kauphallarinnar. Virkur lánamarkaður stuðli að þátttöku erlendra aðila á íslenskum fjármálamarkaði og greiði fyrir öryggi í viðskiptum og eðlilegri verðmyndun.

 

Umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða er hægt að lesa hér: Umsögn LL.