Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eining hafa sameinast.

Á aukaaðalfundi Frjálsa lífeyrissjóðsins sem haldin var fyrir skömmu greiddu sjóðfélagar atkvæði með breytingum á samþykktum sjóðsins en slík atkvæðagreiðsla var forsenda fyrir sameiningu hans og Lífeyrissjóðsins Einingar undir nafni Frjálsa lífeyrissjóðsins. Áður höfðu stjórn og sjóðfélagar Einingar samþykkt að ganga í sjóðinn með fyrirvara um nefndar samþykktarbreytingar Frjálsa lífeyrissjóðsins.

Góð mæting var á fundinn og samþykktu yfir 85% fundarmanna sameininguna. Með sameiningunni næst fram aukin hagkvæmni og aukið öryggi í rekstri. Með sameiningunni verður til einn stærsti og öflugasti lífeyrissjóður landsins þar sem áhersla er lögð á minni rekstrarkostnað, lægra umsýslugjald og meiri áhættudreifingu. Sameining Frjálsa lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðsins Einingar skerðir ekki réttindi sjóðfélaga. Stjórnarformaður Frjálsa lífeyrissjóðsins verður Hörður Sigurgestsson, fráfarandi formaður Lífeyrissjóðsins Einingar en Sigurður R. Helgason, sem áður skipaði stjórnarformannssæti Frjálsa lífeyrissjóðsins, verður varaformaður. Hinn nýi sameinaði sjóður hóf formlega starfsemi sína 1. júlí s.l.