Frjálsi lífeyrissjóðurinn hlýtur eftirsótt verðlaun í árlegri samkeppni evrópskra lífeyrissjóða

Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem rekinn er af eignastýringarsviði KB banka, var valinn besti evrópski lífeyrissjóðurinn í þemaflokknum “Uppbygging lífeyrissjóða” í árlegri keppni í Berlín 1. desember s.l. á vegum tímaritsins IPE, Investment & Pensions Europe. Þessar upplýsingar koma fram í fréttatilkynningu sjóðsins, en þar er þess getið að með sigrinum skipi Frjálsi lífeyrissjóðurinn sér á bekk með mörgum af stærstu og best reknu lífeyrissjóðum Evrópu á undanförnum árum og um leið megi líta á verðlaunin sem dýrmæta viðurkenningu á umgjörð og rekstri íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

Í IPE keppninni er meðal annars keppt um titilinn “besti evrópski lífeyrissjóðurinn” og varð danski sjóðurinn ATP hlutskarpastur fyrir árið 2005.

Þá er keppt í tólf mismunandi þemaflokkum og jafnframt tilnefndir bestu lífeyrissjóðir einstakra landa.

Yfir 80 sérfræðingar í lífeyrismálum sinna tímafrekum dómarastörfum, þar sem farið er í saumana á uppbyggingu, rekstri og árangri sjóðanna. Verðlaunin setja árlega viðmið fyrir alla evrópska sjóði og fylgst er grannt með vali tímaritsins á þeim sem skara fram úr og þeim röksemdum sem að baki búa.

Fjölmargir sjóðir kepptu í flokknum Uppbygging lífeyrissjóða, (DB/DC structuring/strategies), en þau verðlaun þykja ein eftirsóknarverðustu þemaverðlaun IPE keppninnar.

Frjálsi lífeyrissjóðurinn varð hlutskarpastur í þessum flokki fyrir að sameina kosti séreignar- og sameignarsjóða, bjóða upp á valfrelsi fyrir sjóðfélaga og nota fagleg vinnubrögð við ávöxtun eigna og mótun fjárfestingarstefnu. Frjálsi lífeyrissjóðurinn er um 42 milljarðar að stærð og fjöldi sjóðfélaga er rúmlega 32.000. Sjóðurinn hentar þeim sem hafa frjálst val um í hvaða lífeyrissjóð þeir greiða 10% lágmarksiðgjald sitt og jafnframt öllum þeim sem vilja ávaxta viðbótarlífeyrissparnað sinn í sjóðnum.


Fréttatilkynning: Nánari upplýsingar veitir Arnaldur Loftsson arnaldur@kbbanki.is