Í tilefni af frétt Sjónvarpsins og viðtali við Jóhann Pál Símonarson bátsmann mánudagskvöldið 5. janúar 2004 vill stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.
Rekstarkostnaður Lífeyrissjóðs sjómanna er með því lægsta sem þekkist hjá lífeyrissjóðum hvort sem litið er á krónutölu eða hlutfallslega miðað við eignir eða iðgjöld. Hann hefur á 10 ára tímabili, eða á árunum 1993-2002, aukist minna en hjá flestum öðrum sambærilegum lífeyrissjóðum. Upplýsingar og kennitölur eru aðgengilegar í opinberum gögum Seðlabanka og Fjármálaeftirlits.
Á umræddu tímabili hefur kostnaðurinn rúmlega tvöfaldast að krónutölu. Á sama tímabili hefur launavísitala t.d. hækkað um 85%, auk þess sem allt verðlag hefur að sjálfsögðu hækkað á þessum 10 árum. Þá hefur rekstrarumhverfi lífeyrissjóða gerbreyst, komin eru lög um starfsemi lífeyrissjóða sem gera miklu meiri kröfur en áður varðandi rekstur sjóðanna og hæfi starfsmanna og stjórnarmanna. T.d. hefur allt eftirlit með starfsemi lífeyrissjóða stóraukist og þar með kostnaður vegna þess.
Þá hefur sjóðfélögum fjölgað á þessu tímabili, en ekki fækkað eins og fram kom í frétt Sjónvarpsins, starfandi sjómönnum hefur reyndar fækkað en heildarfjöldi sjóðfélaga hefur aukist, úr 32.469 í 38.130, og fjöldi lífeyrisþega um 50%, úr 1.999 í 3.199. Meiri umsýsla fylgir hverjum lífeyrisþega en greiðandi sjóðfélaga.
Eignir sjóðsins hafa vaxið úr 17,3 milljörðum króna í árslok 1993 í 47 milljarða í árslok 2002. Fjármálaumhverfi lífeyrissjóða er orðið mun flóknara en áður og krefst meiri sérþekkingar.
Stjórnarlaun hjá Lífeyrissjóði sjómanna eru sambærileg og hjá öðrum stærri lífeyrissjóðum. Tillaga um laun stjórnarmanna eru borin upp á ársfundi sjóðsins, þar sem atkvæðisrétt hafa 40 fulltrúar sjómanna og atvinnurekenda sem aðild eiga að sjóðnum. Rétt til setu á ársfundi sjóðsins hafa allir sjóðfélagar með málfrelsi og tillögurétti. Tillaga um núverandi stjórnarlaun var samþykkt samhljóða á síðasta ársfundi sjóðsins án athugasemda af hálfu þeirra sem sóttu fundinn.
Stjórnarmenn í lífeyrissjóðum bera mikla ábyrgð samkvæmt lögum og það er fráleit framsetning að eingöngu sé verið að greiða stjórnarmönnum fyrir hvern setinn fund.
Í frétt Sjónvarpsins er fjallað um tap af fjárfestingum og afskriftareikning. Því er til að svara að í bókum sjóðsins er afskriftareikingur sem í árslok 2002 stóð í 51 milljón króna, til þess að mæta mögulegum útlánatöpum vegna sjóðfélagalána.
Stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna telur fjárfestingarstefnu sjóðsins hafa verið farsæla sem endurspeglast í því að aldrei hefur verið tilefni til að færa í afskriftarreikning vegna fjáfestinga og ummæli um einstaka fjárfestingu eiga ekki við rök að styðjast.
Ávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna er og hefur ávallt verið með því besta sem gerist hjá lífeyrissjóðunum hvort sem litið er til einstakra ára eða yfir lengra tímabil og nýliðið ár er það besta í sögu sjóðsins hvað ávöxtun varðar, en raunávöxtun ársins 2003 er um 14%.