Framlag ríkisins til viðbótarlífeyrissparnaðar fellur niður um næstu áramót.

Alþingi hefur samþykkt að fella niður framlag ríkisins til viðbótarlífeyrissparnaðar frá og með 1. janúar n.k. Framlag þetta gat verið hæst 0,4% af launum eða 10% af 4% iðgjaldi.  Í umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands kemur m.a fram að þessi ráðstöfnun mun draga úr vilja þess helmings íslenskra launþega sem ekki tekur þátt í viðbótarlífeyrissparnaði nú til að hefja þátttöku.

Enn væri mikil þörf til að auka þjóðhagslegan einkasparnað, sérstaklega vegna mikilla umsvifa í íslensku efnahagslífi á næstu árum. Í stað þess að um 500 milljónir króna endi á lífeyrisreikningum launþega og tilsvarandi þjóðhagslegur einkasparnaður myndist, aukast tekjur ríkissjóðs um sömu upphæð. Þessum auknu tekjum ríkissjóðs væri þá hægt að ráðstafa til verkefna á vegum hins opinbera með tilsvarandi innspýtingu í efnahagslífið eða í að greiða niður skuldir með tilsvarandi þjóðhagslegum sparnaði. Af þessum þremur kostum er aukning þjóðhagslegs einkasparnaðar æskilegastur að mati Hagfræðistofnunar.

Þá segir einnig orðrétt í umsögn Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands:

“Á hverju ári bætast 2 til 3 þúsund nýir starfsmenn við á íslenskan vinnumarkað og mun ráðstöfunin draga úr hvatanum fyrir þessa starfsmenn til að taka þátt í viðbótarlífeyrissparnaði. Almannatryggingakerfið og almenna lífeyriskerfið munu í framtíðinni gefa eftirlaunaþegum færi á að njóta um 65 til 75% meðaltekna sinna eftir að sest er í helgan stein, ef fullum réttindum er náð. Viðbótarlífeyrir bætir um 10 prósentustigum við þá tölu, miðað við að greitt sé alla starfsævi í viðbótarlífeyrissjóð og að ávöxtun sé þokkaleg. Jafnframt er ljóst að því hærri sem lífeyrir er úr almennum sjóðum og viðbótarlífeyrissjóðum, því minni verður þunginn á almannatryggingar í framtíðinni vegna tekjutenginga.”