Frábær fjárfestingarárangur hjá Samvinnulífeyrissjóðnum.

Hrein raunávöxtun Samvinnulífeyrissjóðins s.l. 5 ár nam 6,9% að meðaltali og skipar þessi árangur sjóðnum í fyrsta sæti þegar raunávöxtunartölur lífeyrissjóðanna eru skoðaðar. Hrein raunávöxtun í fyrra var jákvæð um 0,6%. Framkvæmdastjóri sjóðsins er Margeir Daníelsson.

Hrein eign lífeyrissjóðsins til greiðslu lífeyris nam 17.088 milljónum kr. og hafði hækkað um 1.484 m.kr. eða um 9,5%. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eign nam 0,22%. Á árinu 2001 greiddu 5.590 einstaklingar iðgjöld til sjóðsins og af þessum fjölda greiddu 1.741 til stigadeildarinnar og 3.810 til aldurháðu deildarinnar. Þá greiddu 4.932 einstaklingar til séreignardeildarinnar í fyrra. Samkvæmt tryggingafræðilegri athugun sem gerð var miðað við ársok 2001 vantaði um 3,9% á að heildareignir sjóðsins og verðmæti framtíðariðgjalda næðu heildarskuldbindingum sjóðsins. Gagnvart áföllnum skuldbindingum var staðan neikvæð um 2,9%. Margeir Daníelsson, framkvæmdastjóri sjóðsins sagði m.a. eftirfarandi í ávarpi sínu á ársfundi sjóðins: Þróun í athafna- og fjármálalífi á Íslandi hefur á margan hátt verið jákvæð undangengin ár. Engum blöðum er um það að fletta að frelsi í fjármagnsflutningum hefur leitt af sér ferska strauma inn í atvinnulífið, styrkt fyrirtæki sem fyrir eru, stuðlað að nýsköpun og greitt fyrir nauðsynlegri alþjóðavæðingu í atvinnurekstri. Slíkt er auðvitað gott og blessað en því skal jafnframt haldið hér til haga að ekki hafa allar breytingar í þessum efnum verið til góðs. Það segi ég eftir að hafa, starfs míns vegna, fylgst í áratugi grannt með hræringum í fyrirtækjarekstri og fjármálalífi. Staðreyndin er sú að fjármálalegt vald færist á sífellt færri hendur á Íslandi. Ég tel það neikvæða þróun og hefi verulegar áhyggjur af henni, eins og raunar hefur skýrt komið fram áður í ávarpsorðum á þessum sama vettvangi. Á árum áður var stundum talað um fjölskyldurnar fjórtán sem flestu réðu í íslensku athafnalífi og átti að vera til marks um hve völd og áhrif í samfélaginu væru komin á fáar hendur. Hafi verið sannleiksvottur í því á sínum tíma að fjórtán fjölskyldur réðu öllu í samfélaginu þá má allt eins til sanns vegar færa að fimm til sex fjölskyldur ráði öllu nú í upphafi 21. aldar! Þannig hafa hlutirnir þróast ótrúlega hratt, á aðeins 10-15 árum. Samþjöppun fjármagns og valds gerist í nafni frjálsrar samkeppni og sumir telja þróunina þess vegna góða og gilda. Undirritaður er á öðru máli en er engu að síður hlynntur frelsi á markaði og frjálsri samkeppni. Hins vegar verður samkeppni að hlíta almennum reglum um aðgengi og skattalega meðferð hagnaðar. Þannig er málum einfaldlega ekki hagað núna, nema þá að takmörkuðu leyti. Hvar hefði það gerst annars staðar í Evrópu að þrjár stórar verslunarkeðjur, með yfirgnæfandi markaðshlutdeild, sameinuðust án þess að samkeppnisyfirvöld hefðu neitt við slíkt að athuga? Hvar hefði það gerst annars staðar að fáeinir einstaklingar gætu selt hluta þjóðareignarinnar, þ.e. fiskinn í sjónum, gengið út með milljarða króna í vaxanum án þess að greiða skatta af hagnaðinum? Við viljum hafa frjálst markaðshagkerfi í orði og á borði. En þar eiga að sjálfsögðu að gilda ákveðnar leikreglur svo ekki komi til markaðseinokun eða að ótæpileg auðsöfnun verði gerð lögleg í skattalegu tilliti. Við Íslendingar höfum svo sannanlega náð langt á braut allsnægtanna. Í þeirri vímu höfum við ekki alltaf gætt að ýmsum atriðum sem betur mættu fara í umhverfi okkar eins og að framan greinir. Talið að hlutirnir væru flestir í lagi á meðan að okkur skilaði fram á veginn. Vonandi hafa yfirvöld þessa lands burði í sér til að leiðrétta þá misvísun í þjóðfélaginu sem hér hefur verið bent á.