Frábær ávöxtun hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna - Lífeyrisréttindi hækkuð um 4%.

Ávöxtunin var 20,9% á síðasta ári sem samsvarar 16,1% raunávöxtun sem er því langbesta rekstrarárið í 50 ára sögu sjóðsins. Hæstu ávöxtun eignaflokka sýndu innlendu hlutabréfin en nafnávöxtun þeirra var 71,8% á árinu. Til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 64,7% á sama tímabili. Árleg raunávöxtun innlendu hlutabréfaeignarinnar síðustu 26 árin nemur 20,3%.

Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu sjóðsins hefur stjórn hans ákveðið að leggja til við aðildarsamtök sjóðsins að lífeyrisréttindi sjóðfélaga og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkaðar um 4% frá síðustu áramótum.

 

Eignir og lífeyrisgreiðslur

Eignir LV námu 191 milljarði í árslok 2005 og hækkuðu um liðlega 40 milljarða á árinu eða um 26,7%. Á árinu 2005 greiddu tæplega 48 þúsund sjóðfélagar til sjóðsins og námu iðgjaldagreiðslur alls 11 milljörðum. Þá greiddu 6.800 fyrirtæki til sjóðsins vegna starfsmanna sinna. Á árinu 2005 nutu 7.400 lífeyrisþegar lífeyrisgreiðslna að fjárhæð 2,9 milljarðar.

 

Ávöxtun og rekstrarkostnaður

Ávöxtunin var 20,9% á síðasta ári sem samsvarar 16,1% raunávöxtun sem er því langbesta rekstrarárið í 50 ára sögu sjóðsins. Hæstu ávöxtun eignaflokka sýndu innlendu hlutabréfin en nafnávöxtun þeirra var 71,8% á árinu. Til samanburðar hækkaði Úrvalsvísitala Kauphallarinnar um 64,7% á sama tímabili. Árleg raunávöxtun innlendu hlutabréfaeignarinnar síðustu 26 árin nemur 20,3%. Rekstrarkostnaður sjóðsins var einungis 0,06% af eignum eða sem nemur 64 aurum fyrir hverjar 1.000 krónur.

 

Hækkun lífeyrisréttinda um 4%

Með tilliti til góðrar ávöxtunar og tryggrar stöðu sjóðsins hefur stjórn hans ákveðið að leggja til við aðildarsamtök sjóðsins að lífeyrisréttindi sjóðfélaga og greiðslur til lífeyrisþega verði hækkaðar um 4% frá síðustu áramótum.

 

Tryggingafræðileg staða 

Tryggingafræðileg úttekt sem miðast við árslok 2005 sýnir að eignir eru 6,1% eða 20,7 milljarðar umfram skuldbindingar. Eignir umfram áfallnar skuldbindingar nema 27,4%. Þrátt fyrir 4% hækkun lífeyrisréttinda frá 1. janúar 2006 munu eignir sjóðsins umfram skuldbindingar nema 4,3% eða 14,7 milljörðum að hækkuninni afstaðinni.

 

Verðbréfaviðskipti

Á liðnu ári ráðstafaði sjóðurinn til lánveitinga og hlutabréfakaupa 46,3 milljörðum. Lánveitingar til sjóðfélaga námu 8,6 milljörðum og voru 60% hærri en á fyrra ári. Innlend hlutabréfakaup námu 12,7 milljörðum og sala hlutabréfa 13,1 milljarði. Erlend verðbréfakaup námu 13,3 milljörðum.

 

Séreignardeild

Inneignir sjóðfélaga séreignardeildar í árslok 2005 námu 4,1 milljarði sem er hækkun um 39% frá fyrra ári. Ávöxtun deildarinnar var 20,9% sem samsvarar 16,1% raunávöxtun. Tæplega 39 þúsund einstaklingar áttu inneign í deildinni í árslok.

 

“Góð afkoma sjóðsins á liðnu ári skýrist að stórum hluta af hagstæðri þróun á innlendum hlutabréfamarkaði samfara ágætri ávöxtun annarra verðbréfa sjóðsins” að sögn Þorgeirs Eyjólfssonar forstjóra LV. “Framundan er vinna við að innleiða réttindakerfið sem tekið var upp frá síðustu áramótum, en það er réttindakerfi svonefndrar blandaðrar ávinnslu aldurstengdrar- og jafnrar ávinnslu sem margir lífeyrissjóðir hafa þegar tekið í notkun eða hyggjast taka upp.”  Taldi Þorgeir að árið 2006 gæti orðið hagfellt lífeyrissjóðnum en ólíklega með sama hætti og síðustu þrjú árin.