Með vísan til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 15. nóvember s.l. til að greiða fyrir samkomulagi Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um áframhaldandi gildi kjarasamninga hefur forsætisráðherra skipað nefnd með fulltrúum stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins, Landssamtökum lífeyrissjóða og Öryrkjabandalags Íslands. Bolli Þór Bollason, ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu hefur verið skipaður formaður nefndarinnar.
Verkefni nefndarinnar er m.a. að gera tillögur um samræmingu á viðmiðunum til örorkumats í almannatryggingakerfinu annars vegar og lífeyrissjóðakerfinu hins vegar, þar sem fyrst og fremst verði horft til vangetu einstaklinga til að afla sér tekna.
Jafnframt á nefndin að fjalla um leiðir til að efla starfsendurhæfingu í því skyni að hjálpa einstaklingum sem af einhverjum ástæðum hafa ekki fest rætur á vinnumarkaði vegna örorku. Áhersla verði lögð á að bjóða einstaklingsmiðaða þjonustu þar sem litið verði til starfsgetur einstaklinganna. Jafnframt verði kerfið gert einfaldara og skilvirkara og tryggð betri yfirsýn yfir þau úrræði sem eru í boði hverju sinni.
Í nefndinni eiga sæti, Bolli Þór Bollason, formaður nefndarinnar, Davíð Á. Gunnarsson, Gissur Pétursson, Gunnar Gunnarsson, Gylfi Arnbjörnsson, Hannes G. Sigurðsson, Hallgrímur Guðmundsson, Hrafn Magnússon, Pétur Blöndal og Ragnar Gunnar Þórhallsson.