Fjármálaeftirlitið hefur með dreifibréfi minnt sjóði og fjármálastofnanir sem taka við lífeyrissparnaði að þeim beri að upplýsa fólk nákvæmlega um allan kostnað sem því getur fylgt.
Fjármálaeftirlitinu hafa að undanförnu borist ábendingar vegna starfshátta aðila sem starfa við að koma á samningum um viðbótarlífeyrissparnað, ýmist á vegum vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar eða útibúa þeirra, hjá vátryggingamiðlunum eða líftryggingafélögum. Kvartað hefur verið yfir því að upplýsingagjöf framangreindra aðila til viðskiptavinar um upphafskostnað og endurkaupsvirði samnings og skilmála hans sé ekki fullnægt í öllum tilvikum í þeim tilgangi að fá viðskiptavin til þess að segja upp þeim samningi sem hann hefur þegar gert og gera samning við annan vörsluaðila viðbótarlífeyrissparnaðar.
Fjármálaeftirlitið leggur áherslu á að aðilar á markaði veiti ráðgjöf og aðstoð á faglegan hátt og sinni upplýsingagjöf til viðskiptavinar í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti. Í þeim efnum leggur Fjármálaeftirlitið sérstaka áherslu á mikilvægi upplýsingagjafar um upphafskostnað og endurkaupsvirði samnings sem og skilmála hans því ljóst er að misbrestur á slíkri upplýsingagjöf getur leitt til fjárhagslegs taps fyrir viðskiptavini að óþörfu.