Í grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. ágúst sl. er fjallað um hlutfallslega fjölgun eldra fólks á Íslandi og rætt við Ástu Ásgeirsdóttur hagfræðing hjá LL.
Fram kemur að hlutfall einstaklinga á vinnualdri (16-66 ára) fyrir hvern einstakling á eftirlaunaaldri (67 ára og eldri) hafi lækkað úr 6,36 árið 2000 í 5,19 í byrjun þessa árs. Gert er ráð fyrir að það lækki áfram og verði komið í 4,38 árið 2030, að teknu tilliti til mannfjöldaspár Hagstofunnar. Munu þá vera tveimur færri á vinnumarkaði að baki hverjum 67 ára og eldri en var árið 2000. Fjölgun ellilífeyrisþega mun hafa margvísleg efnahagsleg áhrif og skapa eftirspurn eftir breyttri þjónustu í framtíðinni.
„Fyrir almannatryggingakerfið og skattkerfið í heild skiptir máli að skattstofninn dragist ekki saman af því að mun færri séu á vinnumarkaði. Í grunninn þarf að fá fleiri 67 ára og eldri til að vera lengur á vinnumarkaði. Það verkefni er viðvarandi hjá mörgum löndum. Ísland er frekar vel sett af því að Íslendingar vinna almennt lengur en aðrar þjóðir. Þannig að margir vinna fram yfir 67 ára aldur".