Fjölmennur aðalfundur Landssamtaka lífeyrissjóða var haldinn í gær.

Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, flutti fróðlegt  erindi um framtíð íslenska verðbréfamarkaðarins og  Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands, greindi frá þeirri vinnu sem farið hefur fram um kerfisbreytingu úr jafnri réttindaávinnslu í aldurstengt réttindakerfi. 

Kosin var ný stjórn fyrir samtökin næsta starfsár. Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildi lífeyrissjóður, sem setið hefur í stjórn LL frá upphafi, gaf ekki kost á sér til endurkjörs og var Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, kosinn í hans stað. Auk Gunnars eiga sæti í stjórn samtakanna: Arnar Sigurmundsson, Friðbert Traustason, Haukur Hafsteinsson, Margeir Daníelsson, Þorbjörn Guðmundsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Víglundur Þorsteinsson.

 

Hér á eftir kemur ræða Friðberts Trasutasonar, formanns LL:

     

"Íslenska lífeyriskerfið er einstakt og gaman að geta þess hér að Evrópusamtök lífeyrissjóða kynna okkar kerfi sem þá fyrirmynd, sem aðrar þjóðir eigi að stefna að. Ég nefndi það í fyrra að það var ótrúlegri fyrirhyggja þeirra sem þá sátu við samningaborðið á sjöunda áratug síðustu aldar að þakka að lífeyrisjóðaskerfi okkar er öflugt, og styrkist með hverju ári, sem aðal stoð eftirlauna. Lífeyrissjóðirnir greiða nú mun hærri lífeyri til landsmanna en Tryggingastofnun ríkisins og með hverju ári lækkar hlutdeild almannatrygginga. Á meðan okkar kerfi eflist og dafnar lesum við um skerðingar lífeyris, bæði vestan hafs og austan. Nú síðast tilkynnti Bush að lífeyriskerfi Bandaríkjanna yrði gjaldþrota árið 2040 ef ekki yrði gripið til róttækra aðgerða, það er að auka framlög ríkisins eða skerða núgildandi lífeyriskjör. Aðrar þjóðir öfunda okkur af þeirri fyrirhyggju að hafa í tugi ára safnað í lífeyrissjóði til að mæta lífeyrisskuldbind-ingum og því er það skylda okkar að standa vörð um áframhaldandi farsæla uppbyggingu.

 

Frá ársbyrjun 2007 geta launamenn á almennum vinnumarkaði varið 18% af öllum greiddum launum í uppsöfnuð lífeyrisréttindi, þar af 12% til lífeyrissjóðs og 6% í viðbótarlífeyrissparnað að eigin vali. Af þessum átján prósentum koma 10% frá atvinnurekandum en 8% eru dregin óskattlagt af launum starfsmanna, ef þeir kjósa að leggja 4% í viðbótarlífeyrissparnað. 6% í lífeyrissparnaður er valkvæður, því 2% framlag launagreiðanda kemur aðeins til greiðslu ef launamaðurinn sjálfur leggur sjálfur til að minnsta kosti 2%.

 

10% framlag launamanns og atvinnurekanda í lífeyrissjóð er bundið lögum og til að efla enn frekar sparnað til eftirlauna tel ég tímabært að lögfesta einnig framlögin í viðbótarlífeyrissparnaðinn. Nú leggja aðeins um 50% launamanna inn til séreignar í lífeyrissparnaði, en til að umsamið lífeyriskerfi gangi alveg upp og taki alfarið við hlut hins opinbera verður að tryggja enn frekari þátttöku í viðbótarlífeyrissparnað með lögum.

 

Samkvæmt forsendum og útreikningum tryggingafræðinga getur launamaður tryggt sér 80% af verðtryggðum meðal ævitekjum sem lífeyri ef hann leggur 18% af launum inn í lífeyrissparnað í fjörtíu ár á aldurskeiðinu 23 til 67 ára.

Árið 2004 var á ýmsan hátt hagstætt lífeyrissjóðunum. Enn á ný varð mikil hækkun á innlenda hlutabréfamarkaðinum.  Þannig hækkaði Úrvalsvístala Kauphallar Íslands um 58,9% á árinu. Á liðnu ári hækkaða heimsvísitala Morgan Stanley um 12,8%, en helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu minna. Þannig hækkaði DowJones vísitalan aðeins um rúmlega 3% og Nasdaq um tæplega 9%. Þessar hækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum skiluðu sér ekki í betri ávöxtun lífeyrissjóðanna, þar sem  íslenska krónan styrktist á móti USD um 13,9%. 

 

Þá ber að geta þess að á s.l. hausti hófu bankarnir að bjóða fasteignatryggð lán á lægri vöxtum en áður hafði tíðkast.  Í ljósi þessarar samkeppni lækkuðu lífeyrissjóðirnir einnig vexti á sjóðfélagalánum allt niður í 4,15% fasta vexti. Þetta kom að sjálfsögðu fram í lægri ávöxtun sjóðanna þar sem sjóðfélagalánin báru almennt vexti, sem voru um og yfir 5%.

 

Þrátt fyrir þessar hræringar á verðbréfamörkuðun náðu lífeyrissjóðirnir mjög góðum árangri. Talið er að meðal raunávöxtun sjóðann hafi verið um 10,5% í fyrra. Þetta er góður fjárfestingarárangur annað árið í röð, en á árinu 2003 nam raunávöxtun sjóðanna 11,3% að meðaltali.  Raunávöxtun sjóðana var hins vegar mjög misjöfn í fyrra. Þeir lífeyrissjóðir sem eiga töluverðar eignir í innlendum hlutabréfum uppskáru ríkulega á árinu. Meðalávöxtun lífeyrissjóðanna síðustu fimm árin er þó enn frekar slök eða um 3%, sem rekja má til neikvæðrar raunávöxtunar sjóðanna á árunum 2000 til 2002. 10 ára meðaltalið er hins vegar mun betra eða um 5,6%, og frá því að haldgóðar mælingar hófust á meðalávöxtun sjóðanna, á árinu 1991, þá hefur raunávöxtunin numið að meðaltali um 5,9% á ári.

 

Samkvæmt áætlun Seðlabanka Íslands, sem byggð er á úrtaki 25 stærstu lífeyrissjóðanna, námu heildareignir lífeyrissjóðanna 974 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu aukist um 150 milljarða króna á árinu 2004 eða um 18%.  Eignir lífeyrissjóðanna voru um síðustu áramót um 110% af vergri þjóðarframleiðslu.  Í febrúar á þessu ári náðist svo merkur áfangi þegar eignir lífeyrssjóðanna námu 1.000 milljörðum króna.

 

Erlendar eignir lífeyrissjóðanna námu um 20% af heildareignum í lok síðasta árs og voru svipað hlutfall eigna og undanfarin ár en hæst var hlutfall erlendra eigna sjóðanna á árinu 2000, um 22,6%, en hlutfallið lækkaði hins vegar nokkuð á næstu tveimur árum vegna erfiðleika á erlendum hlutabréfamörkðum.  Lífeyrissjóðum er samkvæmt lögum heimilt að takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af eignum sínum,  þannig að svigrúm til fjárfestinga er nægjanlegt á næstu árum og ljóst að sjóðirnir munu í enn frekari mæli fjárfesta erlendis, þar sem innlendur verðbréfamarkaður ber ekki eignaaukningu og því miður hefur þeim fyrirtækjum sem skráð eru í Kaupphöll Íslands fækkað umtalsvert á síðustu misserum. Lífeyrissjóðirnir vilja fyrir alla muni efla innlendan verðbréfamarkað og þar með starfsemi Kauphallarinnar. Hins vegar þurfa sjóðirnir líka að huga að ýmsum öðrum fjárfestingarkostum, svo sem í arðsömum samgöngumannvirkjum, orkuveitum eða öðrum stórframkvæmdum hér á landi. En til þess þarf að breyta lögum um starfsemi lífeyrissjóðanna og rýmka reglur þeirra til fjárfestinga og að sjálfsögðu verða allar fjárfestingar að gefa eðlilega arðsemi.

 

Góður fjárfestingarárangur lífeyrissjóðanna í fyrra bætir að sjálfsögðu  tryggingafræðilega stöðu þeirra. Þrátt fyrir það eru ýmsar blikur á lofti í starfsumhverfi sjóðanna. Tvennt kemur til og  ástæða er til að endurtaka þær ástæður frá því í ávarpi mínu í fyrra.

 

Í fyrsta lagi hefur heldur meðalævi Íslendinga áfram að lengjast. Þannig hefur ólifuð meðalævi 65 ára karla á undanförnum þremur árarugum lengst úr 15 árum í 17,7 ár eða um 18% og meðalævi kvenna lengst úr 17,8 árum í 20,5 ár eða um rúm 15%. Við þessa breytingu hefur tryggingafræðileg staða leitt til rúmlega 5% hækkunar á framreiknuðum heildarskuldbindingum lífeyrissjóðanna.

 

Í öðru lagi hefur tíðni örorku aukist mjög mikið á undanförnum árum. Að frumkvæði  Landssamtaka lífeyrissjóða var Félagi íslenskra tryggingastærðfræðinga falið að útbúa örorku- og endurhæfingartöflur, sem byggðar væru á innlendri reynslu um tíðni örorku, en fram til þessa hafði verið stuðst við danskar örorkulíkur með allt að 30% afslætti. Þeirri vinnu lauk um síðustu áramót og kom þá í ljós að við tryggingafræðilega athugun var um að ræða verulegt vanmat á tíðni örorku. Örorkubyrðin leggst hins vegar misjafnt á lífeyrissjóðina. Hjá sumum sjóðum er örorkutíðnin lægri en dönsku örorkutöflunar sögðu til um, en hitt er mun algengara að örorkubyrðin sé meiri hjá sjóðnunum og að meðaltali eru íslenskar örorkulíkur um 5% yfir þeim dönsku. Í framhaldi af þessari niðurstöðu var ákveðið að örorkunefnd LL hæfi störf að nýju, en hún hafði skilað áliti fyrri hluta árs 2004. Ljóst er að hér er um svo mikið vandamál að ræða að grípa verður til róttækra ráðstafana, m.a. verður ríkisvaldið að koma að þessum málum, enda er oft um að ræða örorku vegna félagslegra aðstæðna, sem óeðlilegt er að leggist með fullum þunga á einstaka lífeyrissjóði. Ýmiss önnur úrræði koma til greina til að lækka örorkubyrði sjóðanna og má þar t.d. nefna að lífeyrissjóðirnir þurfa í ríkari mæli að koma að skipulagningu og fjármögnun sameiginlegra verkefna á sviði starfendurhæfingar, svo og með því að gera þjónustusamninga við endurhæfingarstöðvar.

 

Í gögnum nefndar á vegum ASÍ og VSÍ, sem vann að endurskipulagningu almenna lífeyriskerfisins á árunum 1993 til 1995 er að finna ýmsar forvitnilegar tölur. Rétt er að geta þess að þessi vinna og niðurstöður nefndar samningsaðila var notuð sem grunnur að núverandi lögum um lífeyrissjóði árið 1997. Í gögnunum má meðal annars finna útreikninga tryggingafræðinga og mat á því hvað hver og einn þáttur samtryggingarinnar kostar í prósentum. Ellilífeyrir tekur 7,7% af tíu prósentunum, en makalífeyrir, barnalífeyrir og örorkulífeyrir 2,3%. Það er alveg ljóst að síaukin tíðni örorku, sérstaklega hjá ungu fólki, gjörbreytir þessum forsendum um ráðstöfun iðgjaldsins til einstakra lífeyrisflokka. Ef þessi þróun heldur áfram verður enn og aftur að hækka iðgjöldin, eins og gert var í síðustu kjarasamningum, lækka sjálfan ellilífeyrinn eða breyta reglum um framreikning örorkulífeyris. Framreikningurinn var og á að vera trygging fyrir þá félagsmenn lífeyrissjóða, sem lenda í óhöppum eða áföllum sem skerðir orku þeirra eða getu til að vera áfram á vinnumarkaði. Lífeyrissjóðirnir eiga ekki og geta ekki tekið að sér hlutverk hins opinbera hvað varðar félagslegar örorkubætur, sem á hinum Norðurlöndunum er leyst með því að viðkomandi ríki greiðir svokallaða “fortids pension”, sérstaklega til þeirra einstaklinga sem verða undir, af ýmsum ástæðum, í síharðnandi kröfum sem gerðar eru á vinnumarkaði  

 

Í desember á síðasta ári undirrituðu Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands samkomulag um framtíðarskipulag lífeyriskerfisins og um ráðstöfun á  1% viðbótarframlagi atvinnurekenda frá síðustu áramótum. Stefnt er að því að tekin verði upp aldurstengd réttindaávinnsla í stað jafnrar réttindaávinnslu. Unnið hefur verið að því að þróa svokallaða “milda aðferð” við yfirfærslu úr jafnri-  í aldurstengda réttindaávinnslu. Taka skal mið af iðgjaldagreiðslum sjóðfélaga á árinu 2003 til jafnrar réttindaávinnslu, svokallað viðmiðunariðgjald. Öll iðgjöld sem berast sjóðnum á ári hverju vegna sjóðfélaga sem hefur skilgreint viðmiðunariðgjald skulu færast í jafna réttindaávinnslu allt þar til viðmiðunariðgjaldinu er náð. Iðgjald umfram viðmiðunariðgjald myndar réttindi í aldurstengdu réttindakerfi.  Ljóst er að um er að ræða flókið ferli og ekki einhlítt hvernig standa ber að slíkri kerfisbreytingu.  Þó stefnumörkun á þessu sviði sé á forræði aðila vinnumarkaðarins, þá leggur stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða áherslu að yfirfærslan geti gengi vel fyrir sig og að samræmis sé gætt á milli sjóða um framkvæmdina.  Landsamtökin eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum svo þessi flókna kerfisbreyting geti tekist sem best í framkvæmd. Allt frá stofnun almennu lífeyrissjóðanna 1970 tóku sjóðirnir upp ákveðnar samskiptareglur sín á milli sem hafa haft það að leiðarljósi að vernda lífeyrisréttindi sjóðfélaga og  koma í veg fyrir að réttindi falli niður eða skerðist, þó sjóðfélagi hafi greitt til margra lífeyrissjóða. Samskiptareglur íslensku lífeyrissjóðanna eru  einstakar og hafa vakið athygli erlendra lífeyrissjóða. Á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða er starfandi sérstök úrskurðar- og umsagnarnefnd um samskipti lífeyrissjóðanna. Sérfræðiþekking og reynsla er því til staðar hjá samtökunum að vinna að sérstökum samskiptareglum sjóðanna við  upptöku aldurstengds réttindakerfis.

 

Ég þakka samstjórnarmönnum, framkvæmdastjóra LL og lífeyrissjóðunum ánægjuleg samskipti og samvinnu á starfsárinu. Landssamtök lífeyrissjóða hafa á umliðnum árum sannað tilverurétt sinn sem hagsmunasamtök allra lífeyrissjóða í landinu og þess vegna eigum við að efla samtökin og gera þau enn virkari sem málsvara í öllum málum sem varða vöxt, viðgang og sameiginlega hagsmuni íslenskra lífeyrissjóða."