Fjármálaráðherra: Ekki ástæða að gera breytingar á lífeyrislögunum.

Fjármálaráðherra hefur sent frá sér skýrslu um þróun lífeyrismála 1998 - 2001. Niðurstaða skýrslunnar er að almenn þátttaka í lífeyrissparnaði samhliða fjölbreyttu framboði af samningum um lífeyrissparnað hafi leitt til þess að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar eigi nú almennt raunhæfan möguleika á því að byggja lífeyrissparnað sinn upp með samþættingu samtryggingar og séreignar.

Skýrsla er gerð í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lífeyrislögunum, þar sem segir að komi í ljós að lífeyrissjóðir hafi almennt ekki boðið upp á valmöguleika í samsetningu lífeyriséttinda, þ.e. samþættingu sameignar og séreignar innan lámarkstryggingarverndarinnar, þá skuli fjármálaráðherra láta, í samráði við hagsmunaaðila, undirbúa frumvarp til laga um breytingu á lögunum þannig að þetta markmið þeirra náist. Ljóst sé að lífeyrissjóðirnir hafa almennt ekki farið þá leið að bjóða sjóðfélögum sínum upp á slíka samsetningu lágmarkstryggingarverndar. Þessu markmiði laganna hafi því ekki verið náð með þeim hætti sem stefnt var að. Hins vegar sýni tölur um hækkun inneignar á reikningum fyrir lífeyrissparnað að hlutur lífeyrissparnaðar í heildarsamsetningu lífeyrisréttinda vaxi hraðar en annars konar lífeyrisréttindi. Af því leiði að sífellt hærra hlutfall lífeyrisréttinda sjóðfélaga fari í séreign án þess að það hafi áhrif á framlag til öflunar lífeyrisréttinda í samtryggingarsjóðum. Það er því meginniðurstaða skýrslu fjármálaráðherra að almenn þátttaka í lífeyrissparnaði, mótframlag ríkisins og vinnuveitenda samhliða fjölbreyttu framboði af samningum um lífeyrissparnað hafi leitt til þess að launamenn og sjálfstætt starfandi einstaklingar eigi nú almennt raunhæfan möguleika á því að byggja lífeyrissparnað sinn upp með samþættingu samtryggingar og séreignar, þrátt fyrir að það hafi gerst með nokkuð öðrum hætti en gert var ráð fyrir við setningu lífeyrislaganna. Einnig sé vert að hafa í huga að stutt reynsla er komin á framkvæmd laganna, eða frá 1. júlí 1998, og því viðbúið að lífeyrissjóðirnir hafi ekki að fullu lagað starfsemi sína að breyttu lagaumhverfi. Það sé því mat fjármálaráðherra að ekki sé ástæða til þess að gera sérstakar breytingar á lífeyrislögunum vegna umrædds bráðabirgðaákvæðis í lífeyrislögunum.