Fjármálaeftirlitið: Birtir yfirlit yfir lífeyriskerfi sjóðanna.

Í nýbirtri skýrslu Fjármálaeftirlitsins um rekstur og efnahag lífeyrissjóðanna fyrir árið 1999 er nú í fyrsta skipti birt yfirlit yfir réttindauppbyggingu sjóðanna. Stigakerfi með jafnri réttindaávinnslu er öflugast að krónutölu eða 74,4% af heild.

Heildareignir lífeyrissjóðanna eru taldar 517.599 m.kr. í lok síðasta árs. Réttindauppbygging sjóðanna var þessi um síðustu áramót í fjárhæðum: Heildareignir í stigakerfi með jafnri réttindavinnslu, þ.e. óháð aldri sjóðfélaga nam 384.751 m.kr. eða 74,4% af heild. Stærsti sjóðurinn í þessum hópi er Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Heildareignir í aldursháðu stigakerfi, þ.e. iðgjöld gefa mismunandi réttindi eftir aldri sjóðfélagans, eru 11.536 m.kr. eða 2,2% af heild. Stærsti sjóðurinn í því kerfi er Lífeyrissjóður verkfræðinga. Heildareignir í hlutfallskerfi, þ.e. lífeyrir er ákveðinn hluti af launum, eru 91.300 m.kr. eða 17,6% af heild. Stærsti sjóðurinn í því kerfi er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, B-deild. Í séreign námu heildarreignir um síðustu áramót 30.011 m.kr. eða 5,8% af heild. Þar er Frjálsi lífeyrissjóðurinn stærstur. Í skýrslu Fjármálaeftirlitsins er þess getið að lífeyrissjóðir sem störfuðu áður sem séreignasjóðir hafi nú breytt réttindauppbyggingu sinni og samþætta nú séreign og sameign til að uppfylla lágmarkstryggingaverndina samkvæmt lögum. Þessar breytingar á séreignasjóðunum hafi ekki lokið fyrr en í upphafi þessa árs og skýrir það mismunandi hátt hlutfall séreignar af hreinni eign viðkomandi lífeyrissjóða. Fjármálaeftirlitið stefni hins vegar að því á næsta ári að birta sérstakt yfirlit fyrir viðbótarlífeyrissparnað og aðgreina þannig þessa tvo þætti lífeyriskerfisins, þ.e. lágmarkstryggingarverndina og viðbótarlífeyrissparnaðinn.