Fjármálaeftirlið: Allir lífeyrissjóðir á almennum vinnumarkaði í tryggingafræðilegu jafnvægi.

Á ársfundi Fjármálaeftirlitsins í gær kom fram í  ræðu Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, að góð ávöxtun lífeyrissjóðanna á árinu 2003 hafði í för með sér að tryggingafræðileg staða sjóðanna batnaði og voru allir lífeyrissjóðir sem eru án ábyrgðar launagreiðanda í tryggingafræðilegu jafnvægi eins og það er skilgreint í lífeyrissjóðalögunum.

Í ræðu Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins kom  einnig fram að sú mikla gengishækkun hlutabréfa síðustu ár og allt fram í októbermánuð sl., hafi  skilað sér í góðri raunávöxtun lífeyrissjóðanna. Á árinu 2003 var hrein raunávöxtun sjóðanna í heild 11,3%.

Allir lífeyrissjóðir að einum undanskildum skiluðu jákvæðri ávöxtun á árinu 2003. Ljóst er að ávöxtun á fyrri hluta árs 2004 var mjög góð. Lífeyrissjóðir eru hins vegar langtímafjárfestar og því er eðlilegt að horfa á ávöxtun sjóðanna yfir nokkurra ára tímabil þegar árangur þeirra er skoðaður. Þannig var fimm ára meðaltal í árslok 2003 3,5% og tíu ára meðaltal 5,4%. Hrein eign lífeyrissjóðanna var 824 ma.kr. í árslok 2003 og var því orðin hærri en verg landsframleiðsla eða 104% af landsframleiðslu.

Góð ávöxtun lífeyrissjóðanna á árinu 2003 hafði í för með sér að tryggingafræðileg staða sjóðanna batnaði og voru allir lífeyrissjóðir sem eru án ábyrgðar launagreiðanda í tryggingafræðilegu jafnvægi eins og það er skilgreint í lífeyrissjóðalögunum. Ekki er þó líklegt að lífeyrissjóðirnir muni bæta réttindi í bráð þar sem nauðsynlegt er að horfa til langs tíma og lífslíkur fara hækkandi auk þess sem örorkutíðni hefur verið að aukast. Þá þurfa lífeyrissjóðirnir að keppa að meiri stöðugleika í ávöxtun.

Fjárfestingar á erlendum vettvangi aukast hægt. Hlutfall gengisbundinna eigna fer nokkuð hækkandi á milli ára, eða úr 16% í 20%. Lífeyrissjóðirnir eru eftir sem áður langt undir þeim mörkum sem lög setja, en þeim er heimilt að eiga gengisbundnar eignir sem nemi allt að 50% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Ætla má að þróun verðbréfamarkaða erlendis ráði miklu um það að útrás þeirra í fjárfestingum hefur ekki verið meiri en raun ber vitni.