Fjármagnsflæði að og frá landinu hefur nú verið gefið frjálst og einstaklingar, fyrirtæki og lífeyrissjóðir geta nú fjárfest erlendis án takmarkana. Í fréttatilkynningu frá stjórnvöldum segir m.a. "Samhliða afnámi hafta á innlenda aðila hefur stærstur hluti vanda sem stafað hefur af svokallaðri snjóhengju aflandskróna verið leystur með samkomulagi Seðlabanka Íslands við eigendur krónanna."
Í viðtali á Stöð 2 þriðjudaginn 14. mars sagði Þorbjörn Guðmundsson, formaður LL, lífeyrissjóðina taka þessu fagnandi. Hlutfall erlendra fjárfestinga í eignasöfnum sjóðanna er nú um 21% en áhugi er á að auka það vægi til muna.