Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóðanna rýmkaðar.

Alþingi hefur samþykkt breytingar á lögum um lífeyrissjóði  og rýmkað fjárfestingarheimldir þeirra. Náðu þessar breytingar fram að ganga fyrir tilstyrk Landssamtaka lífeyrissjóða. Helstu nýmælin eru þau að heimild lífeyrissjóða til að fjárfesta í hlutabréfum er hækkuð úr 50% í 60%, en auk þess er nú heimilt að lána fasteignalán allt að 75% af metnu markarðsvirði í stað 65% áður.

Lífeyrissjóðirnir hafa lengi nýtt sér þá heimild í lögum að veita sjóðfélögum sínum fasteignaveðlán, oft nefnd sjóðfélagalán. Reynslan sýnir að þessi fjárfestingakostur er álitlegur fyrir lífeyrissjóðina. Útlánatöp hafa verið hverfandi og áhættudreifing þessa eignaflokks er mög góð.

Vextir sjóðfélagalána eru almennt ákvarðaðir með hliðsjón af ávöxtunarkröfu ríkistryggðra skuldabréfa, að viðbættu tilteknu álagi sem og m.t.t. aðstæðna á markaði hverju sinni. Þessi ávöxtunarkostur er því almennt hagstæð viðbót við skuldabréfasafn lífeyrissjóða.

Í ljósi breyttrar samkeppnisstöðu á fasteignalánamarkaði, fyrirsjáanlegs samdráttar í útgáfu verðtryggðra ríkisskuldabréfa, samhliða lækkandi ávöxtunarkröfu þeirra, var ljóst að gildandi takmörkun á veðsetningarheimild setti lífeyrissjóðunum  óþarflega þröngar skorður. Í ljósi breyttrar aðstæðna á fasteignalánamarkaði var því þetta hlutfall hækkað úr 65% í 75% af markaðsvirði.

 

Þá var heimild lífeyrissjóða að fjárfesta í hlutabréfum úr 50% í 60% af eignum samþykkt. Með því er sveigjanleiki lífeyrissjóða til frekari fjárfestinga í hlutabréfum aukinn, sem ætti að auðvelda sjóðunum að ávaxta fé sitt á sem hagkvæmastan hátt á hverjum tíma.

 

Í þriðja lagi er nú heimilt að meta hreina eign lífeyrissjóða samkvæmt síðasta uppgjöri innan ársins sem verið hefur kannað eða endurskoðað af endurskoðanda í stað þess að miða við síðasta ársuppgjör. Meginástæður þess eru þær, að örar breytingar á verðbréfamarkaði á gengi verðbréfa geta leitt til verulegra breytinga á hreinni eign lífeyrissjóða frá síðasta endurskoðaða ársuppgjöri. Við slíkar aðstæður kann viðmiðun við síðasta ársuppgjör að takmarka svigrúm lífeyrissjóða til að nýta sér þau fjárfestingartækifæri sem kunna að bjóðast með tilheyrandi skerðingu á ávöxtun sjóðanna.