Fallið frá heildarskerðingu örorkulífeyris um næstu mánaðarmót.

Átta lífeyrissjóðir hafa tilkynnt með sameiginlegri yfirlýsingu að tekjuathugun nú verði í samræmi við fyrri reglur og að ekki verði að fullu tekið tillit til tekna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta þýðir að örorkulífeyrir verður ekki skertur 1. febrúar eins og rætt hefur verið um.

Í tilkynningu sjóðanna 8 kemur fram að hópur örorkulífeyrisþega hafi nú mun hærri tekjur en þeir höfðu áður en starfsgeta þeirra skertist. Lífeyriskerfið eigi að miða að því að bæta fólki tekjutap en ekkert umfram það. Sjóðirnir hafi á undanförnum árum ekki að fullu tekið tillit til tekna frá Tryggingastofnun. Með nýlegri tekjuathugun hafi verið miðað við það að tekið yrði tillit til allra tekna og hafi það valdið nokkrum óróa eins og segir. Nú vinni stjórnvöld að endurskoðun tryggingakerfisins sem miði að því að skilgreina betur hlutverk lífeyrissjóðanna og almannatryggingakerfisins. Stjórnvöld hafi viðurkennt vaxandi örorkubyrði lífeyrissjóðanna.

Í þessu ljósi hafi sjóðirnir átta; sem eru Lífeyrissjóður Austurlands, Lífeyrissjóður bænda, Lífeyrissjóður Norðurlands, Rangæinga, Vestfirðinga, Vestmannaeyja, Festa lífeyrissjóðir og Stafir lífeyrissjóðir; samþykkt að tekjuathugun nú verði í samræmi við eldri reglur og ekki verði tekið að fullu tillit til tekna frá Tryggingastofnun ríkisins. Þetta er gert í trausti þess að kerfið verði endurskoðað til að jafna aðstöðu sjóðanna og til að draga úr örorkulífeyrisbyrði þeirra.

Skorað er á stjórnvöld að flýta endurskoðuninni svo nýjar reglur verði tilbúnar áður en næsta tekjuathugun sjóðanna fer fram næsta haust.

Við þessa frétt er svo að bæta að fundur fulltrúa þeirra lífeyrissjóða sem standa að tekjuathugun örorkulífeyrisþega innan Greiðslustofu lífeyrissjóða, sem haldinn var  11. desember s.l., samþykkti að leggja til við stjórnir viðkomandi lífeyrissjóða  að á næsta ársfundi sjóðanna verði gerðar breytingar á samþykktum þeirra þess efnis að viðmiðunartekjur vegna örorkulífeyris taki breytingum í samræmi við launavísitölu í stað vísitölu neysluverðs.  Tekjuathugun örorkulífeyrisþega innan GL verði frestað þar til að umræddar breytingar hafi hlotið staðfestingu viðkomandi stjórnvalda og verði þá viðmiðunartekjur ársins 2006 lagðar til grundvallar við samanburð á tekjum fyrir og eftir orkutap.Allar lífeyrisgreiðslur sjóðanna verði eftir sem áður miðaðar við breytingar á vísitölu neysluverðs.

Eftirfarandi lífeyrissjóðir hafa orðið við þessum tilmælum: Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lífeyrissjóðurinn og Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda. Þessir sjóðir munu því ekki skerða eða fella niður örorkulífeyrisgreiðslur um næstu mánaðarmót, hvorki samkvæmt því sem áður var ráðgert eða samkvæmt fyrri reglum.