Eru lífeyrissjóðir sökudólgar of hárrar ávöxtunarkröfu húsbréfa?

Vangaveltur um að að lífeyrissjóðirnir haldi viljandi uppi ávöxtunarkröfu húsbréfa til að geta bókfært bréfin á hárri kaupkröfu eru í raun afar sérkennilegar, því það er ljóst að það er hagur lífeyrissjóða, líkt og allra annarra fjárfesta, að kaupa á sem hæstri ávöxtunarkröfu. Greiningadeild Búnaðarbankans telur að umræðan sé á villigötum í mjög góðri umfjöllun í riti sínu um Ávöxtun og horfur.

Háa ávöxtunarkröfu og þar með mikil afföll megi einfaldlega rekja til framboðs húsbréfa umfram eftirspurn. Mikil afföll húsbréfa, þ.e. há ávöxtunarkrafa, hafa verið töluvert í umræðunni síðastliðnar vikur og hafa lífeyrissjóðirnir verið nefndir sem áhrifavaldar í því samhengi . Ef litið er á fjárfestingar lífeyrissjóða, áætlar Greiningadeild Búnaðarbankans að sjóðirnir hafi samtals fjárfest í húsbréfum fyrir um 25% af hreinu ráðstöfunarfé sínu á árinu 2001. Í krónum talið nemur það hreinum kaupum að fjárhæð 12 mö.kr. Líta þarf til áranna 1996-1997 til þess að sjá sambærileg húsbréfakaup lífeyrissjóðanna en á árunum 1998-2000 voru kaupin umtalsvert minni eða allt frá nettó sölu til 7% af ráðstöfunarfé. Greiningadeild Búnaðarbankans áætlar að á árunum 1996 og 1997 hafi hrein kaup lífeyrissjóða á húsbréfum numið um 60% af heildarútgáfu hvers árs. Hins vegar ef litið til áranna 1998-2000 var hlutfall lífeyrissjóða allt frá nettó sölu til 14% af heildarútgáfu húsbréfa. Í mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs fyrir febrúar 2002 er m.a. fjallað um ástæður hárra ávöxtunarkröfu húsbréfa. Fjórar ástæður eru nefndar og meðal þeirra er bent á að bókhaldsreglur og uppgjörsaðferðir lífeyrissjóða hafi haft einhver áhrif á þróun kröfunnar. Því er nefnilega þannig háttað að lífeyrissjóðir gera skuldabréfaeign sína upp á kaupkröfu en ekki markaðskröfu eins og t.d. verðbréfasjóðir gera. Í þessu samhengi hefur verið bent á að lífeyrissjóðirnir myndu aldrei “ hafa efni á því ” að láta ávöxtunarkröfu húsbréfa hækka eins mikið og raun hefur verið síðastliðna vikur, ef þeir gerðu skuldabréfaeignina upp á markaðskröfu. Rökin eru þau að hækkun ávöxtunarkröfu myndi leiða af sér mikið bókhaldslegt gengistap fyrir sjóðina. Einnig má benda á að tekið er mið af ávöxtunarkröfu húsbréfa við vaxtakjör sjóðfélagalána. Eftir því sem krafan er hærri, þeim mun meira verða útlánatekjur lífeyrissjóðanna. Í þessu samhengi er gagnlegt að skoða afleiðingar þess ef allir fjárfestar gerðu upp á markaðskröfu. Að mati Greiningadeildar Búnaðarbankans myndi sú þróun hafa jákvæð áhrif á innlendan skuldabréfamarkað að því leyti að veltan myndi væntanlega aukast og markaðurinn yrði í kjölfarið skilvirkari. Á móti kemur að það getur verið ”hollt” fyrir markaðinn að hafa langtímafjárfesta sem mynda ákveðinn grunn, líkt og lífeyrissjóðir hafa gert fram til þessa. Færa má rök fyrir því að uppgjör á kaupkröfu ýti undir að fjárfestingarákvarðanir byggist á langtímasjónarmiðum eingöngu, fremur en skammtímasjónarmiðum. Skammtímaóróleiki á skuldabréfamarkaði ætti þar af leiðandi ekki að hafa áhrif á stærstu ”endakaupendur” innlendra skuldabréfa þ.e.a.s. lífeyrissjóði. Vangaveltur um að að lífeyrissjóðirnir haldi viljandi uppi ávöxtunarkröfu húsbréfa til að geta bókfært bréfin á hárri kaupkröfu eru að mati Greiningardeildar Búnaðarbankans í raun afar sérkennilegar, því það er ljóst að það er hagur lífeyrissjóða, líkt og allra annarra fjárfesta, að kaupa á sem hæstri ávöxtunarkröfu. Greiningadeild Búnaðarbankans telur að umræðan sé á villigötum. Háa ávöxtunarkröfu og þar með mikil afföll megi einfaldlega rekja til framboðs húsbréfa umfram eftirspurn.