Erlend verðbréfakaup neikvæð í desember s.l. um 857 m.kr.

Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðisviði Seðlabanka Íslands voru viðskipti við útlönd með erlend verðbréf neikvæð um 857 m.kr. Samanburður milli desembermánaða 1999 og 2000 leiðir í ljós mun minni kaup í erlendum verðbréfasjóðum í desember 2000.

Í desember voru viðskipti innlendra aðila með erlend verðbréf fyrir um 13,5 ma.kr. Kaup námu 6,3 ma.kr. og sala/innlausn um 7,2 ma.kr. Sala umfram kaup nemur 857 m. kr. og því eru viðskipti við útlönd með erlend verðbréf neikvæð sem því nemur. Ein skýringin á þessari neikvæðu stöðu að mati tölfræðisviðis Seðlabankans er sú að viðskiptaaðilar seldu bréf sín og virðast hafa fundið fjármunum sínum farveg í annað. Neikvæð staða á viðskiptum við útlönd var síðast í nóvembermánuði 1996 og nam þá 794 m. kr. Mestu viðskipti innlendra aðila með erlend verðbréf árið 2000 áttu sér stað í septembermánuði en mestu nettókaupin áttu sér stað í marsmánuði.