Erlend verðbréfakaup dragast enn saman.

Hrein erlend verðbréfakaup í apríl námu 1,1 ma.kr samanborið við 5,7 ma.kr. í apríl í fyrra. Kaup á erlendum verðbréfum námu námu um 7,6 ma. og sala/innlausn um 6,6 ma.kr. Í apríl í fyrra voru kaup á erlendum verðbréfum töluvert hærri eða um 9,3 ma. kr. en þá nam sala/innlausn um 3,8 ma. kr. Það sem af er árinu nema hrein erlend viðskipti 5,7 ma.kr. en voru 21,4 ma.kr. á sama tímabili í fyrra.

Meginskýringin á þessum umskiptum er sú að nettókaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum hafa dregist verulega saman. Í apríl í fyrra námu hrein viðskipti með verðbréf um 4,9 ma. kr. samanborið við um 0,6 ma. kr. nú í apríl. Heildarviðskipti með hlutdeildarskírteini í verðbréfasjóðum hafa dregist saman milli ára eða úr 6,0 ma.kr. (apríl 2000) niður í 2,3 ma. kr. (apríl 2001). Viðskipti með hlutabréf hafa hins vegar aukist en velta þeirra viðskipta nam um 6,7 ma.kr. í apríl 2000 en var nú um 11,9 ma.kr. Ástæða þess er trúlega sú að kauptækifæri hafa skapast erlendum hlutafjármörkuðum eftir lækkanir síðustu mánaða. Mikil sala/innlausn á hlutabréfum erlendra fyrirtækja helst þó í hendur við hvika markaði en sem dæmi um það má nefna að Nasdaq vísitalan náði í byrjun apríl sínu lægsta gildi síðan 1998 en hafði í lok mánaðarins hækkað um rúmlega 30% frá botngildinu. Gengi íslensku krónunnar féll verulega í aprílmánuði eða um 6,3% sem hefur líkast til haft einhver áhrif á viðskipti með erlend verðbréf


Heimild: Tölfræðisvið Seðlabanka Íslands