Erlend verðbréfakaup aðeins 95 m. kr. í maí s.l.

Samkvæmt samantekt Seðlabanka Íslands námu hrein erlend verðbréfakaup um 95 milljónir króna í maímánuði s.l. Nettókaupin í maí eru mun lægri en nettókaupin í fyrra sem voru um 1.400 milljónir króna. Leita þarf allt aftur til janúar (64 m.kr.) og marsmánaðar 1996 (109 m.kr.) til að finna svo lágar tölur. Erlend verðbréfakaup janúar-maí á þessu ári eru 17 milljörðum króna lægri en í sömu mánuðum í fyrra!

Kaup og sala/innlausn í maímánuði námu næstum því sömu fjárhæðum eða um 7,6 ma.kr. Til samanburðar má geta þess að kaup á erlendum verðbréfum í maímánuði í fyrra voru töluvert lægri eða (um 5,0 ma.kr.) en þá nam sala/innlausn um 3,6 ma.kr. Viðskipti með hlutdeildarskírteini í erlendum verðbréfasjóðum jukust í maímánuði ( um 3,8 ma.kr.) samanborið við viðskiptin í aprílmánuði sl. (um 2,3 ma.kr). Í maímánuði 2000 voru viðskipti með hlutdeildarskírteini fyrir um 2,8 ma.kr. Lítið dregur úr viðskiptum með hlutabréf en velta þeirra viðskipta nam um 11,0 ma.kr í maí samanborið við 11,9 ma.kr. í aprílmánuði. Í maímánuði 2000 voru viðskipti með hlutabréf fyrir um 5,2 ma.kr. Nettókaup tímabilsins janúar-maí 2001 eru um 5,8 ma.kr. en voru á sama tíma í fyrra um 22,8 ma.kr. Litlar breytingar áttu sér stað á erlendum mörkuðum í maímánuði en þannig lækkaði t.d. Nasdaq vísitalan um 0,27%, S&P 500 vísitalan hækkaði um 0,51% og Dow Jones vísitalan hækkaði um 1,65%. Birting uppgjöra annars ársfjórðungs og hagtölur á næstu vikum gætu haft töluverð áhrif á hlutabréfaverð og þróun markaða. Gengislækkun íslensku krónunnar hélt áfram í maímánuði og var um 6,0% sem hefur líkast til haft einhver áhrif á viðskipti með erlend verðbréf.