Erlend verðbréfakaup aðeins 566 m.kr. í janúar s.l.

Í janúar voru viðskipti innlendra aðila með erlend verðbréf fyrir um 14,4 ma.kr. Kaup námu um 7,5 ma.kr. og sala/innlausn um 6,9 ma.kr. Nettókaupin í janúar námu því aðeins 566 m.kr, sem eru sambærileg kaup við nettókaup janúarmánaðar 1998 (643 m.kr.) og nettókaup janúarmánaðar 1997 (645 m.kr.). Nettókaupin í janúar eru hins vegar töluvert minni en nettókaupin í janúarmánuði í fyrra (3,1 ma.kr.) og við nettókaupin í janúar árið 1999 (um 1,9 ma.kr.).

Kaup á erlendum verðbréfum í janúar nema um 7,5 ma. kr. sem er nokkuð minna en í janúarmánuði árið 2000 (um 8,0 ma. kr.) og miðað við janúarmánuð 1999 (um 8,5 ma.kr.). Í því sambandi má nefna að stofnanafjárfestar hafa oft byrjað árin með því að kaupa erlend verðbréf og keypt til þess gjaldeyri á markaði. Mikil sala/innlausn í janúarmánuði 2001 og þá sérstaklega á hlutabréfum erlendra fyrirtækja gerir það hins vegar að verkum að nettókaupin í janúar eru töluvert lægri en árið 2000. Að sögn Seðlabanka Íslands eru ýmsar ástæður taldar kunna að skýra umfang sölu/innlausna í janúar en þar kann að hafa áhrif að erlendir hlutabréfamarkaðir lækkuðu flest allir árið 2000 en þó mismikið. Taka þarf tillit til gengisbreytinga íslensku krónunnar árið 2000 þegar áhrifin á íslenska fjárfesta eru skoðuð. Hvað sem því líður, þá má gera ráð fyrir að lækkanirnar hafi haft töluverð áhrif á viðhorf íslenskra fjárfesta í janúarmánuði. Töluverðar dagsveiflur voru einnig á erlendum mörkuðum í upphafi ársins. Einnig má nefna að ávöxtunarkrafa innlendra skuldabréfa lækkaði talsvert um miðjan janúarmánuð, kauptækifæri mynduðust og skuldabréf fengu aukna athygli fjárfesta. Erlendir fjárfestar festu kaup á hús- og húsnæðisbréfum fyrir um 4 milljarða króna í mánuðinum sem einnig hafði jákvæð áhrif á markaðinn og voru viðskipti með skuldabréf töluverð í janúarmánuði. Ýmsar fleiri ástæður liggja sjálfsagt að baki lágum nettókaupum í janúar.


Heimild: Seðlabanki Íslands, tölfræðisvið.