Enn dregur úr erlendum verðbréfakaupum.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að sala erlendra verðbréfa umfram kaup nam 239 m. kr. í október en til samanburðar voru nettókaup um 927 m. kr. í sama mánuði árið 2000. Neikvæð verðbréfaviðskipti við útlönd voru síðast í ágústmánuði en athygli vekur að viðskiptin hafa í þrígang verið neikvæð það sem af er árinu 2001.

Til samanburðar má geta þess að á tímabilinu okt. 1996-okt. 2000 voru viðskiptin einungis neikvæð í nóvember 1996. Athygli vekur að á fyrstu 10 mánuðum yfirstandandi árs nema hrein kaup erlendra hlutabréfa um 6,5 ma.kr. en sala hlutdeildarskírteina umfram kaup nemur um 459 m.kr. Til samanburðar má geta þess að á fyrstu 10 mánuðum ársins 2000 námu hrein kaup á erlendum hlutabréfum um 9,8 ma.kr. og hrein kaup á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum námu um 32 ma.kr. Verulegur viðsnúningur hefur því átt sér stað í viðskiptum við útlönd með erlend verðbréf. Þróun einstakra undirliða í október var eftirfarandi: Hrein sala á hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum nam um 540 m.kr. en á sama tíma árið 2000 voru nettókaup um 2,8 ma. kr. Hrein kaup á erlendum hlutabréfum námu um 373 m.kr. en voru á sama tíma í fyrra um 331 m. kr. Hrein sala á erlendum skuldabréfum nam um 74 m.kr. Á sama tíma í fyrra var hrein sala um 2,2 ma.kr. Allt stefnir í þá átt að viðskipti við útlönd með erlend verðbréf verði á þessu ári innan við 20% af heildarkaupum árins 2000 og ekki nema um 30% af heildarkaupum árins 1999. Frá ársbyrjun 2001 hefur dollarinn hins vegar hækkað um rúmlega 27%. Því er ljóst að leita verður annarrar skýringar en þeirrar að erlend verðbréfakaup hafi haft áhrif á lækkun íslensku krónunnar á þessu ári, eins og sumir hafa haldið fram.


Heimild: Seðlabanki Íslands, tölfræðisvið