Enn aukast viðskipti með verðbréf útgefin erlendis.

Í samantekt tölfræðisviðs Seðlabanka Íslands kemur fram að nettókaup erlendra verðbréfa voru samtals 7.245 m.kr. í ágúst samanborið við nettókaup fyrir um 5.135 m.kr. í sama mánuði árið 2003. Nettókaup fyrstu átta mánuði ársins 2004 nema um 45,5 ma.kr. samanborið við um 23 ma.kr. á sama tíma árið 2003.

 Þróun einstakra undirliða í ágúst var eftirfarandi:

  • Nettókaup á erlendum hlutdeildarskírteinum í erlendum verðbréfasjóðum námu um 3.121 m.kr. en nettókaup í sama mánuði árið 2003 námu um 4.320 m.kr.
  • Nettókaup á erlendum hlutabréfum námu um 3.584 m.kr. en nettókaup í sama mánuði árið 2003 námu um 272 m.kr.
  • Nettókaup erlendra skuldabréfa námu um 540 m.kr. en nettókaup skuldabréfa námu um 531 m.kr. í sama mánuði árið 2003.

Nettókaup fyrstu átta mánuði ársins 2004 nema um 45,5 ma.kr. samanborið við um 23 ma.kr. á sama tíma árið 2003. Athygli vekur að nettókaupin nema nú þegar 45.483 m.kr. samanborið við nettókaup fyrir um 45.530 m.kr. allt árið 2003.

Mikil aukning í erlendum verðbréfakaupum það sem af er árinu 2004 á sér ýmsar skýringar að mati Seðlabankans. Lágt gengi dollarans og hagstætt verð á bandarískum hlutabréfum hefur án efa sín áhrif. Gera má ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir standi á bak við stærstan hluta af erlendu verðbréfakaupunum.

Til fróðleiks má geta þess að erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna nam í lok júlí 2004 um 186,6 ma.kr. eða um 20,7% af hreinni eign lífeyrissjóðanna. Upplýsingar um erlenda verðabréfaeign lífeyrissjóðanna í lok ágúst liggja ekki fyrir en þess má geta að í árslok 2003 nam erlenda eignin um 156,4 ma.kr. eða um 19,3% af hreinni eign lífeyrissjóðanna.

Í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða nr. 129/1997 segir m.a. að lífeyrissjóður skuli takmarka áhættu í erlendum gjaldmiðlum í heild við 50% af hreinni eign sjóðsins. Af framgreindu má ráða að sumir sjóðir eru nokkuð langt frá 50% markinu. En þrátt fyrir að lífeyrissjóðirnir hafi verið duglegir við erlend verðbréfakaup árið 2004 og keypt að hámarki fyrir um 30 ma.kr. fram til loka júlí þá skýrir það ekki nema að hluta til erlend verðbréfakaup að fjárhæð 45,5 ma.kr. fyrstu átta mánuði ársins að sögn bankans.

Til að finna það sem upp á vantar er fróðlegt að skoða reikninga innlánsstofnana en samkvæmt þeim var var reikningsstaðan undir liðnum erlend hlutabréf um 16,5 ma.kr. í árslok 2003 en var komin upp í 31 ma.kr. í lok mars 2004. Innlánsstofnanir fjárfestu því mikið í erlendum verðbréfum á fyrsta ársfjórðungi, staðan lækkaði í apríl en jókst síðan aftur í ágúst og var um 31 ma.kr. í lok ágúst eða svo til sú sama og í lok mars.

Að sögn Seðlabankans  má ráða að það fjármagn sem lá á lausu í bankakerfinu fyrr á árinu hafi að hluta til verið ávaxtað með erlendum verðbréfakaupum til a.m.k. hálfs árs. Framangreindar tölur virðast benda til þess að það hafi einkum verið lífeyrissjóðirnir sem voru að kaupa erlend verðbréf á tímabilinu apríl til loka júlí en innlánsstofnanir og lífeyrissjóðir staðið að kaupunum í ágúst.