Nýlega gekk í gildi endurnýjað samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Markmið þessa samkomulags er fyrst og fremst að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga, sérstaklega varðandi sjálfskuldarábyrgðir. Slíkt á ekki við um lífeyrissjóðina, þar sem þeim er með öllu óheimilt samkvæmt lögum að lána með sjálfskuldarábyrgð.
Hið nýja samkomulag var undirritað af Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja, Sambandi íslenskra sparisjóða, Neytendasamtökunum og viðskiptaráðherra. Önnur fjármálafyrirtæki eða samtök fjármálafyrirtækja geta einnig gerst aðilar að samkomulagi þessu. Ljóst er að umrætt samkomulag hentar vel fjármálastofnunum en á almennt ekki við um lífeyrissjóðina,þar sem þeim er með öllu óheimilt samkvæmt lögum að lána með sjálfskuldarábyrgð. Þá lána fjármálastofnanir yfirleitt til skamms tíma en lán lífeyrissjóða til sjóðfélaga eru hins vegar almennt til mjög langs tíma, jafnvel í nokkra áratugi. Greiðslugeta sjóðfélaga þegar lán eru veitt úr lífeyrissjóði segir því ekki mikið um möguleika hans til að standa við fjárskuldbindingar sínar í framtíðinni. Þá ber þess að geta að í þeim tilvikum sem lánsveð tíðkast hjá lífeyrissjóðunum, þá er yfirleitt um það að ræða að foreldrar eru að aðstoða börn sín við fjármögnun íbúðarhúsnæðis, m.a. með tryggingu í formi lánsveðs. Lánsveð með þeim hætti þarf hins vegar ekki að kalla á sérstakt greiðslumat af hálfu lífeyrissjóðanna. Landssamtök lífeyrissjóða fagna hins vegar frumkvæði fyrirtækja á fjármálamarkaði, stjórnvalda og Neytendasamtakanna varðandi endurnýjun fyrra samkomulags. Miðað við þær aðstæður sem lífeyrissjóðirnir búa við telja samtökin hins vegar ekki að sjóðirnir geti gerst aðilar að þessu samkomulagi, sem er fyrst og fremst sniðið að þörfum fjármálafyrirtækja, s.s. banka og verðbréfafyrirtækja, eins og áður er getið. Landssamtök lífeyrissjóða hafa hins vegar hvatt lífeyrissjóðina til þess að við einstakar lánveitingar þá komi þeir þeim upplýsingum á framfæri til þess sem veitir lánsveð að hann kynni sér vel þær kvaðir og skyldur sem hann hefur tekið að sér og að hann þurfi að bera mikið traust til þess aðila, sem fær viðkomandi fasteignaveð að láni.