Í 19. grein laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er ákvæði þess efnis að heimilt sé að endurgreiða iðgjöld til erlendra ríkisborgara, þegar þeir flytjast úr landi enda sé slíkt ekki óheimilt samkvæmt milliríkjasamningi sem Ísland er aðila að.
Landssamtök lífeyrissjóða óskuðu nýlega eftir áliti fjármálaráðuneytsins hvaða milliríkjasamningar kæmu í veg fyrir endurgreiðslu til erlendra ríkisborgara. Í svari ráðuneytisins er tekið fram að samkvæmt EES-samningnum sé lífeyrissjóðum ekki heimilt að endurgreiða iðgjöld til ríkisborgara aðildarríkja EES-samningsins. Það byggi á gagnkvæmu samkomulagi aðildarríkja samningsins um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkjanna, sbr. 29. grein EES-samningsins. Af þessu leiðir líka að endurgreiðsla lífeyrissjóðsiðgjalda til Íslendinga er að sjálfsögðu ekki heimil hér á landi og hefur ekki verið um áratugi.