Á aðalfundi Landssamtaka lífeyrissjóða í dag flutti Davíð Oddsson formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands erindi um stöðu og horfur í efnahagsmálum með sérstakri áherslu á mikilvægi lífeyrissjóðanna. Fram kom í erindi Davíðs að í lok síðasta árs svöruðu heildareignir íslenskra lífeyrissjóða til 120% af vergri landsframleiðslu. Ekkert lífeyrissjóðakerfi í heiminum væri svo stöndugt sem hið íslenska.
Þá kom fram í ræðu Davíðs að hann teldi að auknar fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis væru líklegar til að hafa jákvæð áhrif á þróun gjaldmiðilsins. Davíð gat þess að eftirlaunakerfið hér á landi miðaðist að mestu við að hver starfandi maður spari hluta af launum sínum og geymi í sjóði, sem síðan væri varið til að greiða eftirlaun hans. Því þurfi ekki að auka skattheimtuna þótt efirlaunaþegum fjölgi hlutfallslega. Lífeyriskerfið hér á landi uppfylli þær kröfur sem á alþjóðavettvangi hafi verið talið að gera eigi til bestu lífeyriskerfa.
Sjá ræðu Davíðs Oddssonar í heild.