Eignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vaxa um 11,8 milljarða.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur birt upplýsingar um starfsemina á árinu 2001. Eignir sjóðsins námu í árslok 97,5 milljarðar og hækkaði eignin um 11,8 milljarð á árinu eða tæp 14%. Ávöxtun sjóðsins á árinu 2001 var 7,8% sem samsvarar - 0,7% raunávöxtun.

Á árinu 2001 greiddu 41.142 sjóðfélagar til sjóðsins og fjölgaði þeim um 883 eða um 2% frá fyrra ári. Iðgjaldagreiðslur til sjóðsins námu 6.808 m.kr. og er það aukning um rúm 16%. Jafnframt greiddu 5.687 fyrirtæki til sjóðsins vegna starfsmanna sinna og fjölgaði fyrirtækjum um 346 eða um rúm 6%. Ávöxtun sjóðsins á árinu 2001 var 7,8% sem samsvarar -0,7% raunávöxtun samanborið við 1,2% raunávöxtun á árinu 2000. Raunávöxtun innlendra hlutabréfaeignar sjóðsins var - 14,8% og nafnávöxtun - 7,4% en til samanburðar lækkaði Heildarvísitala aðallista Verðbréfaþings Íslands um 9,4% á árinu 2001. Heildararðsemi innlendu hlutabréfaeignarinnar yfir tímabilið 1980 til árslok 2001 er 9,8%. Raunávöxtun erlendu hlutabréfaeignar sjóðsins var - 11,8% á árinu 2001. Raunávöxtun innlendrar skuldabréfaeignar nam 5,9% á liðnu ári samanborið við 6,1% á árinu 2000. Meðalraunávöxtun sjóðsins síðustu 5 árin er 5,9%. Tryggingafræðileg úttekt sem miðast við árslok 2001 sýnir að skuldbindingar nema 2,9 milljörðum umfram eignir.