Eignir lífeyrissjóðanna yfir 500 miljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðisviði Seðlabanka Íslands námu eignir lífeyrissjóðanna yfir 512 ma.króna í árslok síðasta árs. Búist var við því að sjóðirnir næðu 500 ma.kr. markinu nú í febrúar, en ljóst er það hefur orðið mun fyrr eða í desember á síðasta ári. Ástæðan er ekki síst sérstaklega góð raunávöxtun sjóðanna.

Seðlabankinn hefur áætlað ýmsar efnahagsstærðir lífeyrissjóðanna m.v. úrtak hjá stærstu sjóðunum. Í árslok 1999 nam hrein eign lífeyrissjóðanna 512 ma.kr. og hafði aukist um 105 ma. kr. frá árslokum 1998. Á síðasta ári hélt áfram sú breyting á eignasamsetningu lífeyrissjóðanna sem segja má að hafi byrjað í verulegum mæli á árinu 1997 og felst einkum í stórauknum kaupum þeirra á erlendum verðbréfum. Erlend verðbréfaeign í eigu lífeyrissjóðanna nam í árslok síðasta árs rúmlega 95 ma.kr. samanborið við 50 ma.kr. í árslok 1998. Nema eignir lífeyrissjóðanna erlendis nú um 19% af heildareignum þeirra. Ekkert bendir til annars en fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis verði verlulegar á þessu ári og eru allar líkur á því að fjárfestingar erlendis muni stóraukast á næstu árum, sérstaklega þó fjárfestingar lífeyrissjóðanna í skráðum erlendum hlutabréfum. Síðasta ár verður talið besta ár lífeyrissjóðanna m.t.t. þess árangurs sem náðist í raunávöxtun og er engum vafa undirorpið að beint samhengi er á milli erlendrar fjárfestingar sjóðanna og góðrar raunávöxtunar þeirra.