Eignir lífeyrissjóðanna lækka lítillega milli mánaða.

Hrein eign lífeyrissjóðanna til greiðslu lífeyris var 1.822 ma.kr. í lok júní síðastliðins og lækkaði frá fyrri mánuði eða um 1,4 ma. kr. skv. tölum sem Seðlabankinn birti í gær. Þessa rýrnun er tilkominn vegna breytinga á erlendum eignum sjóðanna. Erlend verðbréfaeign lækkaði um 17,5 ma.kr. í mánuðinum á meðan innlend verðbréfaeign jókst um 11,5. Þessi rýrnun á erlendum eignum sjóðanna er líklega tilkominn vegna slæms gengis á erlendum hlutabréfamörkuðum og styrkingar krónunnar á sama tíma. Krónan styrktist um tæp 2% gagnvart bandaríkjadollar í júní og um 0,5% gagnvart evrunni.  Eignir lífeyrissjóðanna hafa nú rýrnað tvo síðustu mánuði um samtals rétt rúma 23 ma. kr.


Í lok júní hafði hrein eign lífeyrissjóðanna hækkað um 148,7 ma.kr. frá sama tíma fyrir ári. Þar af hafði innlend verðbréfaeign hækkað um 153,7 ma.kr. en erlend verðbréfaeign um 4,2 ma.kr. Að nafnvirði hefur hrein eign lífeyrissjóðanna því hækkað um 8,9% frá sama tíma í fyrra en sé tekið tillit til verðbólgu nemur hækkunin 3%. Þar verður þó að hafa í huga að iðgjaldagreiðslur inn í lífeyrissjóði eru til muna hærri en lífeyrisgreiðslur og útflæði vegna innlausnar séreignarsparnaðar. Raunávöxtun sjóðanna er því minni en framangreind tala gefur til kynna.

Í krónum talið er hrein eign sjóðanna lægri en hún var fyrir hrun bankanna, en í september 2008 nam hún 1.863 mö.kr. sem er ríflega 41 mö.kr. meira en hún var í lok júní. Þrátt fyrir þann mikla skell vegna lífeyrissjóðirnir urðu fyrir vegna hlutabréfaeignar og eignar banka- og fyrirtækjaskuldabréfa í kjölfar hrunsins eru sjóðirnir enn stórir í alþjóðlegu samhengi. Nam hrein eign þeirra í júnílok 121% af vergri landsframleiðslu síðasta árs. Taka skal fram að enn ríkir nokkur óvissa um endanlegt mat á eignum lífeyrissjóðanna og ber þess vegna að taka mati á hreinni eign sjóðanna með fyrirvara.

Úr Morgunkorni Íslandsbanka.