Eignir lífeyrissjóðanna hafa aukist mjög mikið á þessu ári eða um rúmlega 78 milljarða króna fyrstu átta mánuðina. Er það mikil aukning, þegar tekið er tillit til þess að eignirnar jukust aðeins um 16 milljarða fyrstu átta mánuði síðasta árs.
Þessar upplýsingar koma frá tölfræðisviði Seðlabankans og eru byggðar á úrtaki 25 stærstu lífeyrissjóðanna, sem í árslok 2002 áttu tæp 94% af hreinni eign allra lífeyrissjóða.
Heildareignir lífeyrissjóðanna námu í ágústlok s.l. 757.330 m.kr. samanborið við 678.930 m.kr. um síðustu áramót. Aukningin nemur 78.400 m.kr. eða um 11,5%.
Þá vekur athygli að fyrstu átta mánuði ársins jukust erlendar eignir lífeyrissjóðanna um 30.976 m.kr. og nema nú um 133.898 m.kr. sem er 17,7% af heildareignum sjóðanna. Vöxturinn frá áramótum er um 30%.
Aukning sjóðfélagalána er hins vegar tiltölulega lítil eða aðeins um 4,6% eða úr 83.455 m. kr. um síðustu áramót í 87.293 m.kr. Þá vekur einnig athygli að sjóðstaða lífeyrissjóðanna var óvenjulega mikil í lok ágúst s.l. eða 21.672 m.kr. sem er aukning um 7.341 m.kr. frá síðustu áramótum.