Eignir lífeyrissjóðanna jukust hægar á síðasta ári.

Árið 2000 var lífeyrissjóðunum mun óhagstæðara en árið 1999 og jókst hrein eign þeirra hægar en um 20 ára skeið. Samkvæmt bráðabirgðatölum nam hrein eign lífeyrissjóðanna í heild 570 ma.kr. í árslok 2000 sem svarar til 84% af vergri þjóðarframleiðslu. Þetta kemur fram í ársskýrslu Seðlabanka Íslands.

Í lok ársins áttu lífeyrissjóðir 168 ma. kr. í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum, bæði innlendum og erlendum, eða sem svarar tæpum 30% af hreinni eign sjóðanna. Óhagstæð þróun hlutabréfaverðs á árinu er án efa megin orsök lakari ávöxtunar sjóðanna á árinu 2000 en mörg undanfarin ár. Á síðasta ári var meiri aukning í eign sjóðanna í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum eða 20,4%, en í skuldabréfum, 6,7%. Sambærilegar tölur ársins 1999 voru 106,5% fyrir hlutabréf og hlutabréfasjóði, en 11,7% fyrir skuldabréf. Erlend verðbréfaeign lífeyrissjóðanna var tæpir 127 ma.kr. í árslok 2000, samanborið við rúma 98 ma.kr. ári áður. Verulega hægði á vexti þessarar eignar, úr 97,5% á árinu 1999 í 29,3% árið 2000. Verðþróun ræður miklu um þessar breytingartölur. Útlán til sjóðfélaga jukust mjög á árinu, um 12 ma.kr. eða sem svarar 26,9%, og stóðu í 56,4 ma.kr. í lok árs. Þarf að fara allt aftur til ársins 1985 til að finna meiri ársaukningu þeirra. Til að mynda jukust sjóðfélagalánin um 12,9% árið 1999 og 3,1% 1998, en árið 1997 var lítilsháttar samdráttur á þeim.