Samkvæmt upplýsingum frá tölfræðisviði Seðlabankans námu eignir lífeyrissjóðanna alls um 574 miljarðar króna í lok ágúst s.l. og höfðu hækkað um 56 miljarða króna frá ársbyrjun þessa árs.
Nú sem fyrr er það þó upplýsingar um erlendar eignir lífeyrissjóðanna sem vekja mesta athygli. Þær voru í lok ágústmánaðar s.l. komnar upp í rúmlega 130 miljarða króna miðað við 97 miljarða króna í ársbyrjun. Hlutfall erlendra eigna nam því 22,7% í lok ágúst s.l., sem er heldur hærra hlutfall en í júní og júlí s.l., þegar hlutfall erlendra eigna nam um 21,5% af heildareignum lífeyrissjóðanna. Kaup lífeyrissjóðanna á erlendum verðbréfum námu þessum fjárhæðum fjárhæðum á árunum 1994 til 1999: 1994 = 1,9 ma.kr. 1995 = 3,6 ma.kr. 1996 = 4,1 ma.kr. 1997 = 14,8 ma.kr. 1998 = 26,7 ma.kr. 1999 = 41,6 ma.kr. sem er nýjasta áætlun, byggð á þeim ársreikningum sem borist hafa. Ekki er enn vitað um erlend verðbréfakaup sjóðanna á þessu ári en spár gera ráð fyrir að kaupin hafi a.m.k. nú þegar numið 25 miljörðum króna.