Eignir lífeyrissjóða 1.9 m.kr. á hvert mannsbarn!

Í nýlegri grein í Euroletter eru eignir lífeyrissjóða í Evrópu taldar 238.140 miljarðar króna og er þá miðað við tölur á miðju ári 1998. Eignir íslensku lífeyrissjóðanna eru nú yfir 500 miljarðar króna eða um 1.9 m.kr. á hvert mannsbarn!

Í greininni er lýst vonbrigðum hversu seint og lítið hefur gengið að koma á útbótum í lífeyrismálum í Evrópu en gegnumstreymiskerfi eru þar mjög algeng. Með gegnustreymiskerfi er átt við að ekki er safnað í sjóði heldur eru iðgjöldin látin duga hverju sinni fyrir greiddum lífeyri. Í stað þess að taka upp sjóðsmyndandi lífeyriskerfi eru úrræðin frekar í þá átt að hækka lífeyrisaldurinn, lækka bæturnar, hækka iðgjöld og tengja bætur frekar við verðbólgu en launaþróun. Ef skoðaðar eru eignir lífeyrissjóða í Evrópu er ljóst að eignirnar eru mestar í Bretlandi og Hollandi. Í Bretlandi eru eignirnar um 1.540 þús. kr. á hvern íbúa en í Hollandi 2.583 þús. kr. á hvern íbúa. Á Norðurlöndum eru eignirnar hæstar á hvern íbúa í Danmörku eða 2.270 þús. kr. en aðeins 583 þús. kr. í Finnlandi. Í greininni kemur einnig fram að þegar eignasöfn lífeyrssjóðanna er skoðuð þá aukast hlutabréf tiltölulega mjög hratt sem hlutfall af eignum. Þannig var hlutfall hlutabréfa um 44% af heildareignum lífeyrissjóða í Evrópu (júní 1998) borið saman við 61% hjá lífeyrissjóðum í Bandaríkjunum.