Eiga lífeyrissjóðirnir að sjá um greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins?

Á ársfundi Tryggingastofnunar ríkisins á dögunum varpaði Bolli Héðinsson, formaður tryggingaráðs, því fram að vel mætti hugsa sér að lífeyrissjóðirnir tækju það að sér, hver og einn, að sjá um allar greiðslur til sjóðfélaga sinna, bæði eigin greiðslur og greiðslur almannatrygginga.

Orðrétt sagði Bolli Héðinsson, formaður tryggingaráðs, eftirfarandi á ársfundinum:

"Við endurskoðun lífeyristryggingakerfisins, sem auðvitað mun verða fyrr en síðar, þá ber brýna nauðsyn til að huga að nýjum leiðum sem gætu gert kerfið skilvirkara og einfaldara. Vil ég í því sambandi rifja upp hugmynd sem ég setti fram hér á þessum vettvangi fyrir fáeinum árum þar sem ég lagði til að lífeyrissjóðunum í landinu yrði ætlað stærra hlutverk við framkvæmd greiðslu lífeyristryggingabóta almannatrygginga. Vel mætti hugsa sér að lífeyrissjóðirnir tækju það að sér, hver og einn, að sjá um allar greiðslur til sjóðfélaga sinna, bæði eigin greiðslur og greiðslur almannatrygginga. Sæju sjóðirnir þá um það í umboði ríkisins, sem fjármagnaði greiðslurnar, en lífeyristryggingaþátturinn hyrfi með öllu frá Tryggingastofnun. Ég held enn að hér hafi lífeyrissjóðirnir hlutverki að gegna sem þeir geta sem hægast tekið við af ríkisvaldinu. "