Eftirlaunaþegar áheyrnarfulltrúar í stjórnum lífeyrissjóða?

Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, sem haldinn var 27. febrúar s.l., beinir þeim tilmælum til lífeyrissjóða að tryggt verði að áheyrnarfulltrúar eftirlaunaþega fái sæti í stjórnum lífeyrissjóða. Væntanlega er þá átt við að slíkir fulltrúar hafi málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.

Vegna þessarar tillögu Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni er rétt að árétta að stjórnarmenn lífeyrissjóða eiga að sjálfsögðu að gæta hagsmuna allra sjóðfélaga, þ.á.m. lífeyrisþega, hvort sem þeir njóta elli-, örorku- maka- eða barnalífeyris. Í 27. gr. 12. tölul. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um að í samþykktum lífeyrissjóða skuli vera ákvæði um upplýsingaskyldu lífeyrissjóða til sjóðfélaga. Þessari skyldu kappkosta lífeyrissjóðirnir að fullnægja, t.d. með því að upplýsa sjóðfélaga um lífeyrisrétt þeirra, með útgáfu bæklinga og dreifirita og með yfirlitum til sjóðfélaga, þar sem fram koma upplýsingar um helstu niðurstöður tryggingafræðilegrar úttektar og rekstrar. Þá birta margir lífeyrissjóðir árlega auglýsingar í blöðum um helstu niðurstöðutölur úr ársreikningum. Þrátt fyrir að upplýsingagjöf til sjóðfélaga hafi aukist verulega á undanförnum árum, er þó sjálfsagt að hvetja lífeyrissjóðina að sinna enn betur upplýsingaskyldu sinni. Í því sambandi kæmi sterklega til álita að koma á reglulegum samráðsfundum með stjórn og lífeyrisþegum viðkomandi sjóðs, þar sem farið yrði betur yfir framangreindar upplýsingar. Skipun áheyrnarfulltrúa eftirlaunaþega er hins vegar flóknara mál, þó ekki væri nema vegna þess að örorku- og makalífeyrisþegar sætu þá ekki við sama borð og eftirlaunaþegarnir.