Eftirlaunasjóður slökkviliðsmanna á Keflavíkurflug-velli sameinast Lífeyrissjóði starfsmanna sveitar-félaga.

Sameiningu Eftirlaunasjóðs slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli (ESK) og LSS er nú að fullu lokið og mun hún miðast við 1. júlí 2004.  Frá og með þeim degi annast LSS greiðslur alls lífeyris fyrrum sjóðfélaga ESK, tók við öllum eignum ESK og fer með vörslu og ávöxtun þeirra.

Árið 1997 voru sett lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Samkvæmt þeim uppfyllti ESK ekki kröfur um stærð lífeyrissjóðs og í framhaldi af lagasetningunni var ESK lokað fyrir móttöku iðgjalda frá 1. janúar 1999.

Stjórn ESK fór þess á leit við LSS hvort að grundvöllur væri fyrir því að LSS tæki yfir rekstur sjóðsins.

Með samkomulagi sem gert var milli sjóðanna þann 8. mars 2001, var ákveðið að öll iðgjöld slökkviliðsmanna frá 1. janúar 1999 mynduðu réttindi viðkomandi sjóðfélaga hjá LSS í samræmi við samþykktir þess sjóðs.  ESK annaðist áfram útborgun lífeyris og hélt utanum réttindi sjóðfélaga með geymd réttindi.

Frá 1. janúar 2001 öðluðust starfandi slökkviliðsmenn hjá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli kjarasamningsbundna skylduaðild að LSS og gátu frá því tímamarki nýtt sér þá valkosti og valmöguleika sem bjóðast sjóðfélögum LSS.

Í samkomulaginu frá 8. mars 2001 var ákvæði þess efnis að skoða hagkvæmni þess að sjóðirnir sameinuðust að fullu með það að markmiði að auka hagkvæmni í rekstri, bæta áhættudreifingu og ávöxtun eigna.

Með undirritun samrunasamnings er sameiningu sjóðanna nú að fullu lokið. Tryggingastærðfræðingar munu meta skuldbindingar hvors sjóðs miðað við 30. júní 2004 í samræmi við ákvæði laga og reglugerða og skal þeirri vinnu lokið fyrir 15. september nk.