Eftirlaunakerfi Íra stokkað upp

Ríkisstjórn Írlands boðar uppstokkun í eftirlauna- og skattakerfi landsins til að koma í veg fyrir að byrðar á herðum skattgreiðenda framtíðarinnar þyngist stöðugt vegna lífeyrisskuldbindinga ríkisins. Áformin voru kynnt núna í vikunni og urðu strax eitt heitasta umræðu- og deiluefni þjóðmálaumræðunnar þar í landi.
Eftirlaunaaldur Íra er nú 65 ár en ríkisstjórnin gerir ráð fyrir að hækka hann í áföngum um þrjú ár á næstu áratugum: í 66 ár 2014, í 67 ár 2021 og í 68 ár 2028.
Þetta þýðir með öðrum orðum að Írar, sem eru nú á aldrinum 50-55 ára, fara á eftirlaun 67 ára en þeir sem eru 49 ára eða yngri fara á eftirlaun 68 ára.

Brian Cowen, forsætisráðherra Írlands, sagði á fréttamannafundi í Dublin, að núna þyrfti sex manns á vinnumarkaði til að standa undir útgjöldum ríkisins vegna eins eftirlaunaþega en árið 2060 dygði vinnuframlag tveggja í þessu skyni og tæplega það. Hann lýsti vandanum í ríkisfjármálunum að óbreyttu þannig að útgjöld vegna eftirlaunakerfisins myndu aukast úr 5,5% af landsframleiðslu 2008 í nær 15% árið 2050. Í ljósi slíkrar framtíðarspár væri augljóst að Írar yrðu að endurmeta eftirlaunapólitík sína frá grunni.

Gert er ráð fyrir að atvinnurekendur á Írlandi verði skyldaðir til að skrá í lífeyriskerfið alla starfsmenn sem eru orðnir 22 ára og greiða í lífeyrissjóði af launum viðkomandi. Launamenn geta hins vegar valið að fara tímabundið út úr kerfinu við tilteknar aðstæður. Til dæmis geta hjón ákveðið að nota frekar fjármuni, sem ella færu í lífeyrissjóð, til að greiða inn á nýja íbúð en eftir tvö ár verða þau sjálfvirkt skráð aftur inn í lífeyriskerfið. 

Þeir sem nú þegar greiða í „frjálsa“ lífeyrissjóði fara ekki inn í nýja lífeyriskerfið ef lífeyrisgreiðslurnar þeirra eru jafnháar eða hærri en iðgjöld í nýja kerfinu.

Lögbundnar lífeyrisgreiðslur í írska kerfinu verða 8%, þar af 4% frá launamanni, 2% frá atvinnurekanda og 2% sem ríkið leggur á móti í formi skattaívilnunar.

Ríkisstjórn Írlands kynnti jafnframt hvernig breytingin muni birtast starfsmönnum hins opinbera. Lífeyrisréttindi nýliða í opinberri þjónustu verða samræmd því sem gerist á einkamarkaði þannig að eftirlaunaaldur hækki, opinberir starfsmenn hætti að vinna í síðasta lagi sjötugir og eftirlaun þeirra miðist við meðallaun á starfsferlinum en ekki við lokalaun á ferlinum.

Forseti alþýðusamband Írlands, David Begg,  gagnrýnir áform stjórnvalda harðlega og segir að launafólki verði gert skylt að afhenda einkareknum lífeyrissjóðum hluta af launum sínum til að stjórnendur þar á bæ geti lagt enn meiri fjármuni undir í áhætturekstri og braskað áfram á verðbréfamörkuðum. Hann bætir við að frammistaða stjórnenda írskra lífeyrissjóða sé sú versta sem þekkist í svokölluðum þróunarríkjum og nú eigi að verðlauna þá sérstaklega fyrir vanhæfni sína. 

Byggt á Irish Times og globalpensions.com