Eftirlaunaaldur í Bretlandi hækkaður í 70 ár?

Breskir launamenn gætu þurft að fresta því að fara á eftirlaun til sjötugs, nema þeir hafi lagt þeim mun meira fyrir af fjármunum til nota á efri árum. Nýjar rannsóknir sýna að almenningur gerir sér ekki grein fyrir þessum væntanlegu breytingum á eftirlaunaaldri og efasemdir hafa vaknað um hvort hækkun hins opinbera eftirlaunaaldurs sé í raun æskileg.

David Norgrove, formaður The Pension Regulators, sem er eftirlitsstofnun starfstengdra lífeyrissjóða í Bretlandi, sagði nýlega að nauðsynlegt væri að hækka opinberan eftirlaunaaldur í Bretlandi til sjötugs til að draga úr útgjöldum í lífeyriskerfinu.

Sérfræðingar hjá ráðgjafafyrirtækinu Aon Consulting and Mercer taka að nokkru undir með Norgrove og telja að fólk eigi ekki annarra kosta völ en að lengja starfsævina sína, nema það auki verulega við sparnað, byrji bæði fyrr og leggi meira fyrir en áður. Matthew Spence, ráðgjafi hjá Aon Consulting, segir að þrátt fyrir að 70 ára væri hár eftirlaunaaldur, gæti sparnaðarþörfin þvingað bresk stjórnvöld til að taka slíka ákvörðun.

Ríkisstjórnin muni endurskoða lög um eftirlaunaaldur í Bretlandi á næsta ári og veruleikinn kalli á breytingar af hennar hálfu:  „Það er ekki ólíklegt að eftirlaunaaldur Breta verði hækkaður í 68 eða jafnvel 70 ár,“ segir Matthew Spence.

Debra Cooper, forstöðumaður rannsóknahóps á sviði eftirlaunamála hjá Mercer, telur að breskir launamenn hvorki geti né vilji horfast í augu við hærri eftirlaunaaldur en margir þeirra neyðist engu að síður til þess vegna efnahagsástandsins:

„Meðalævin lengist enn og eftirlaunaaldurinn verður að hækka nema fólk spari meira sjálft. Sjálf myndi ég ekki vilja vinna til sjötugs en spurningin er líka hvort allir sem vilja vinna svo lengi fái vinnu svo langt fram eftir ævinni. Það þarf líka að hafa aukinn sveigjanleika í kerfinu, en staðreyndin er sú að það er fremur fólk af efri stéttum sem lifir lengur, en líf lágstéttafólks er ekki að lengjast að sama skapi.“

„Vandamálið er líka hvort það verði til störf fyrir fólk á þessum aldri. Það er rétt að fólk lifir lengur, en heldur fólk heilsunni lengur? Sum fyrirtæki gætu verið undir þrýstingi því að fólk hefur ekki efni á að hætta að vinna og heldur því áfram til sjötugs.“


Byggt á IPE.