Danir fögnuðu árinu 2011 með flugeldum og tilheyrandi eldglæringum eins og vera ber. Sú áramótabomba sem fékk samt langmesta athygli í Danmörku var pólitísks eðlis og féll í nýársávarpi forsætisráðherra ríkisstjórnar mið- og hægri flokka, Lars Lökke Rasmundsens. Drunurnar frá þeirri bombu hafa hreint ekki hljóðnað í þjóðmálaumræðu Dana nú þegar komið er fram yfir miðjan janúar.
Forsætisráðherrann boðaði í áramótaboðskap sínum að svokallað eftirlaunakerfi yrði afnumið í áföngum og opinber lífeyrisaldur hækkaður í 68 ár árið 2030. Þar með yrði lífeyrisaldur í Danmörku sá hæsti innan OECD. Þar á eftir kæmu Ísland, Bandaríkin, Noregur og Ástralía, að öllu óbreyttu.
Umrætt eftirlaunakerfi Dana var sett á laggir árið 1979. Því var ætlað að gera erfiðisvinnufólki kleift að hætta að vinna um sextugt, fimm árum áður en það náði opinberum lífeyrisaldri. Hugsunin var öðrum þræði sú að gera ungu fólki kleift að komast í vinnu þegar þeir eldri stigju til hliðar á vinnumarkaðinum og þar með drægi úr langtímaatvinnuleysinu sem einkenndi danskt atvinnulíf á þessum tíma.
Ríkissjóður Danmerkur borgar að verulegu leyti brúsann vegna eftirlaunakerfisins og það eru útgjöld sem um munar á tímum efnahagsþrenginga. Kostnaður ríkisins nam 23 milljörðum danskra króna árið 2009 og það ár nutu 150.000 Danir góðs af þessu fyrirkomulagi.
Danska ríkisstjórnin gerir ráð fyrir því að byrja að skerða eftirlaun árið 2014. Ekkert verður hróflað við réttindum þeirra sem eru fæddir fyrir 1954 en launafólk fætt árið 1965 verður síðasti hópurinn sem getur náð einhverjum réttindum úr kerfinu áður en það heyrir sögunni til árið 2024.
Kosningamál í Danmörku í ár
Meirihluti kjósenda virðist sammála forsætisráðherranum um að farsælla sé að draga úr útgjöldum ríkisins með því að afnema eftirlaunakerfið frekar en að hækka skatta eða skera niður útgjöld til annarra velferðarmála. Þar að auki er öldin önnur að mörgu leyti nú en var á áttunda áratug síðustu aldar í Danaveldi. Ástandið á vinnumarkaði er betra nú en þá hvað ungt fólk varðar og möguleikar eldra fólks á vinnumarkaði eru sömuleiðis betri nú en þá. Þar við bætist að fólk er að jafnaði hraustara og lifir lengur en áður. Það er einfaldlega ekki litið á sextugt fólk sem „gamalt“.
Áramótaútspil forsætisráðherra Dana var vissulega pólitísks eðlis. Kjörtímabili danska þingsins lýkur í nóvember 2011 og þess vegna blasa við þingkosningar í Danmörku seint á nýbyrjuðu ári. Nærtækt er að álykta sem svo að forsætisráðherrann geti vel hugsað sér að rjúfa þing mun fyrr, flýta með öðrum orðum þingkosningunum og láta þá meðal annars kjósa um hugmyndir sínar um umfangsmiklar breytingar í eftirlauna- og lífeyriskerfi landsins. Það hlýtur líka að hvetja hann til þingrofs fyrr en síðar að nær sex af hverjum tíu kjósendum í Danmörku hallast að umfangsmiklum breytingum á eftirlaunakerfinu, ef marka má niðurstöður nýrrar Gallup-könnunar. Og í sömu könnun kemur fram meiri stuðningur við að Lars Rökke Rasmundsen frá Venstre verði áfram forsætisráðherra en að Helle Thorning-Schmidt, leiðtogi jafnaðarmanna, verði forsætisráðherra nýrrar vinstristjórnar.
Verkalýðshreyfingin andvíg
Verkalýðshreyfingin í Danmörku gagnrýnir ríkisstjórnina harkalega og sama gerir stjórnarandstaðan með jafnaðarmenn fremsta í flokki. Fjármálaráðherra Dana, Claus Hjort Frederiksen, hefur reynt að lægja ögn ófriðaröldur vegna áramótaávarps fjármálaráðherrans með því að benda á að hugmyndirnar, sem viðraðar hafi verið, séu „ein hugmynd af mörgum“ sem ríkisstjórnin vinni með. Hann mælir því hins vegar ekki í mót að staðfastlega sé stefnt að róttækum breytingum eftirlaunakerfisins, hvernig svo sem þær líti út að lokum.
Yfirgnæfandi líkur eru því á að hér sé komið eitt af stórum kosningamálunum í Danmörku í ár, hvort sem Danir ganga að kjörborði fyrr eða síðar til að velja sér nýtt þjóðþing og þar með nýja ríkisstjórn.
Byggt á berlingske.dk, ritzau.dk og bt.se eginmál]