Landssamtök lífeyrissjóða hafa gefið út rit, þar sem er að finna skrá og reifanir yfir alla Hæstaréttardóma frá 1970 til loka árs 1999 og varða lífeyrismál eða lífeyrissjóði með einhverjum hætti. Sambærileg skár er einnig að finna yfir álit umboðsmanns Alþingis.
Stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða ákvað í vetur að gefa út í rit og setja á heimasíðu samtakanna reifanir um dóma Hæstaréttar og álit umboðsmanns Alþingis er varða lífeyrissjóðina. Til verksins var fenginn Guðjón Axel Guðjónsson, lögfræðingur í viðskiptaráðuneytinu. Ritinu er ætlað að gefa yfirlit yfir dóma um lífeyrismál og auðvelda leit að dómum og fordæmum um úrlausn ágreiningsmála um lífeyrismál. Í ritinu eru reifaðir flestir dómar Hæstaréttar er varða lífeyrismál frá árinu 1970 til loka árs 1999. Þá er og að finna reifanir á álitum umboðsmanns Alþingis vegna lífeyrismála frá því hann tók til starfa og til loka árs 1999. Í ritinu er einnig að finna skrá yfir alla Hæstaréttardóma er fundust í dómasafni Hæstaréttar frá 1970 til 1999 og varða lífeyrismál eða lífeyrissjóði með einhverjum hætti. Sambærilega skrá er einnig að finna yfir álit umboðsmanns Alþingis. Það er von Landssamtaka lífeyrissjóða að rit þetta muni koma að góðum notum við úrlausn ýmissa álitamála sem kunna að koma upp í starfsemi lífeyrissjóðana.