Hinn gríðarstóri og öflugi lífeyrissjóður ATP í Danmörku, sem metinn er á yfir 48 milljarða evra, hefur ákveðið að verja 292 milljónum evra (400 milljónum Bandaríkjadala) til framleiðslu hreinnar og sjálfbærrar orku með fjárfestingum í nýjum orkusjóði, Hudson Clean Energy Partners. Markmiðið er að styrkja þróun og framleiðslu sólar-, vind- og vatnsorku auk lífræns eldsneytis og lífmassa.
Fjárfestingin er ein sú stærsta sem um getur á þessu sviði og með henni slæst ATP í för með mörgum af stærstu lífeyrissjóðum heims, til að mynda hinum breska USS og hollensku sjóðunum ABP og PGGM. Þá hefur heyrst að stærsti lífeyrissjóður Bandaríkjanna, CalPERS, hugi að enn frekari fjárfestingum á sviði sjálfbærrar orku með 200 milljóna dala fjárfestingu í sjóði sem rekinn er af Khosla Ventures.
ATP segir ákvörðun sína vera tekna í ljósi mats á því að áhætta verkefnisins sé afmörkuð og vel skilgreind. Fjármununum verður einkum varið til að stuðla að útbreiðslu þekktra og þróaðra tæknilausna í sólar-, vind- og vatnsorku á Spáni, í Þýskalandi, Bandaríkjunum og Bretlandi. Hluta fjárfestingarinnar er ætlað að standa undir þróunarvinnu á orkulausnum á borð við lífrænt eldsneyti og lífmassa.