Danir hafa áhyggju af skuldbindingum lífeyrissjóðanna.

Á undanförnum árum hefur verið mikil umræða í Danmörku um lífeyrisskuldbindingar sjóðanna. Dönsku lífeyrissjóðirnir eru skattpíndir af stjórnvöldum, sem er mjög sérstakt og þekkist ekki annars staðar í Evrópu.

Evrópusambandið hefur lagt til að iðgjöld til lífeyrissjóða séu frádráttarbær frá skatti og að ekki þurfi að greiða skatta af eignum sjóðanna, s.s. fjármagnstekjuskatta. Hins vegar eigi að skattleggja lífeyrisgreiðslurnar. Danskir lífeyrissjóðir hafa hins vegar þurft að sæta því, allt frá árinu 1982, að greiða fjármagnstekjuskatt, sérstaklega af vaxtatekjum af skuldabréfum. Ætlun stjórnvalda var að takmarka með skattlagningu ávöxtun lífeyrissjóðanna við 3,5% raunávöxtun. Ekki var þó á vísan að róa með skatttekjur fyrir stjórnvöld, því lágir vextir og lítil verðbólga gátu þýtt minni skatta. Á síðasta ári var reglunum breytt. 26% skattur á nafnvexti af skuldabréfum var lagður á og hagnaður af hlutabréfum, sem ekki hafði áður verið skattlagður, þurfti nú að sæta 5% skatti. Þessi aukna skattheimta samfara lágri raunávöxtun sjóðanna hefur haft í för með sér að lífeyrisskuldbindingar þeirra eru nú í uppnámi. Þrátt fyrir aðvaranir samtaka lífeyrissjóða í Danmörku og annarra félagasamtaka gerðu stjórnmálamenn sér engan veginn grein fyrir vandanum og þeirri áhættu sem lífeyrissjóðirnir og sjóðfélagar þeirra standa núna frammi fyrir. Lögfræðilegur ráðgjafi á vegum hins opinbera hefur rannsakað málið. Skoðun hans er sú að sjóðfélagar gætu farið í mál við stjórvöld og krafist þess að ríkið tæki ábyrgð á lífeyrisréttindum þeirra, þar sem sjóðirnir gætu ekki efnt lífeyrisskuldbindingar sínar vegna breyttrar skattálagningar stjórnvalda. Þessar breyttu skattareglur komu sér ákaflega illa fyrir þá lífeyrissjóði, sem voru með tiltölulega lítið hlutfall af hlutabréfum í eignasöfnum sínum en þeim mun stærra hlutfall af skuldabréfum í sínum söfnum. Stjórnvöld ákváðu því enn einu sinni að breyta skattálagningunni í desember 2000 og var nú lagður á 15% fjármagnstekjurskattur á allar eignir lífeyrissjóðanna. Ljóst er að þessar aðgerðir stjórnvalda eru einungis gerðar til þess að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga, sem gæti þó verið skammgóður vermir, ef ríkið þarf síðan að hlaupa undir bagga og með sjóðunum, þannig að þeir geti staðið við lífeyrisskuldbindingar sínar í framtíðinni.


IPE okt. 2001