Danir greiða minna í lífeyrissjóði í ár en í fyrra

Lífeyrissparnaður í Danmörku verður minni árið 2010 en árin þar á undan. Þegar á heildina er litið má ætla að Danir leggi alls 6 milljörðum danskra króna minna fyrir til efri áranna nú en í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá Forsikring & Pension.

Hér hefur orðið veruleg breyting á því Danir juku greiðslur sínar í lífeyrissjóði ár frá ári og nutu skattaívilunar út á aukinn lífeyrissparnað. Svo ákváðu stjórnvöld að draga úr þessum skattaívilnunum árið 2010 og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Þar við bætist efnahagssamdráttur í dönsku samfélagi, sem einnig letur þegna Margrétar Þórhildar til lífeyrissparnaðar umfram skyldu. Fjölgi atvinnulausum fækkar að sjálfsögðu þeim sem greiða til lífeyriskerfisins.

Carsten Andersen, aðstoðarframkvæmdastjóri Forsikring & Pension, gerir samt ekki ráð fyrir því að ástandið vari lengi. Hann telur meira að segja að strax  árið 2011 aukist lífeyrissparnaður í Danmörku á nýjan leik og verði jafnvel svipaður og metárið 2009. Það ræðst  hins vegar af atvinnuástandinu og launaþróun í landinu. 

 Stuðst við forsikringogpension.dk