Danskir stjórnmálamenn hafa um árabil hvatt landa sína til að vera sem lengst virkir á vinnumarkaðinum. Sjálf samfélagsþróunin er þveröfug! Niðurstaða könnunar á vegum Forsikring & Pension sýnir nefnilega að Danir fara nú á eftirlaun tveimur árum fyrr en árið 1992. Þetta á einkum við um menntafólk.
Danir fóru að jafnaði á eftirlaun 65 ára árið 1992 en árið 2008 var þessi meðalaldur kominn niður í 63 ár. Þetta gerðist þrátt fyrir að stjórnmálamenn í Danmörku hefðu á undanförnum árum breytt eftirlauna- og skattakerfinu til að gera það eftirsóknarvert að vera lengur á vinnumarkaði.
Það hefur viðrað býsna vel í efnahagslífi Dana undanfarin fimmtán ár og möguleikar fólks á sjötugsaldri á vinnumarkaði hafa aldrei verið betri. Samt togaði eftirlaunalífið í Dani á efri árum og kannski enn frekar nú en áður því. í Danaveldi, líkt og víða annars staðar í veröldinni, eru efnahagsþrengingar með tilheyrandi atvinnuleysi.
Árið 1992 var tíundi hver nýr eftirlaunamaður í Danmörku með háskólapróf eða hliðstæða menntun. Sé litið á árið 2008 kemur í ljós að hlutfall háskólamanna í hópi nýrra eftirlaunamanna var komið upp í 23%. Þetta er með öðrum orðum mikil breyting. Hlutfall ófaglaglærðra í hópi nýrra eftirlaunamanna lækkaði að sama skapi. Það var yfir 50% árið 1992 en var komið undir þriðjung 2008.