Credit Suisse: Hætta á frekari lækkun íslensku krónunnar.

Í nýrri greiningu frá Credit Suisse á horfum um þróun íslensku krónunnar á næstunni, kemur m.a. eftirfarandi fram: Ójafnvægi í íslenska hagkerfinu bendir til þess að ólíklegt sé að krónan styrkist.     Verðbólguhætta er enn til staðar.  Credit Suisse gerir ráð fyrir að verðbólga fari enn vaxandi og fari hæst í 10% á ársgrundvelli vorið 2007.

Halli á viðskiptum við útlönd, sem nú er um 20% af VLF, nær til allra þátta utanríkisviðskipta, þótt vöruskiptajöfnuður vegi þyngst. Ýmsir þættir hafa þó áhrif til að draga úr viðskiptahalla á næstunni:

               

1)    Um 2/3 hlutum af fjárfestingu í áliðnaði verður lokið nú í sumar og því mun innflutningur fjárfestingavara fara minnkandi.

2)    Aukinn álútflutningur mun hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð á árinu 2007.

3)    Hærri vextir og lækkandi raunráðstöfunartekjur ættu að leiða til minni innflutnings neysluvara.

 

Hlutfall viðskiptahalla af VLF ætti að fara niður í um 9% á árinu 2007.

 

Þar til í febrúar á þessu ári átti um 70% af verðbólgunni rætur að rekja til vaxandi húsnæðiskostnaðar. Nú er það hins vegar gengislækkun krónunnar sem hefur mest áhrif á verðbólguna.

 

Gengislækkun krónunnar á árinu hefur fyrst bein áhrif til hærri innfluttrar verðbólgu, en það er það ferli sem nú stendur yfir. Þegar frá líður tekur við ferli minnkandi eftirspurnar eftir innfluttum vörum og vaxandi útflutningstekna.

 

Credit Suisse gerir ráð fyrir að verðbólga fari enn vaxandi og fari hæst í 10% á ársgrundvelli vorið 2007.

 

Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi hækkað stýrivexti um 3,25% frá apríl 2005 þá hafa raunvextir lækkað úr 6,1% í 3,8% á sama tíma. Peningamálastefnan hefur því alls ekki verið aðhaldssöm. Credit Suisse býst við a.m.k. 75 punkta hækkun stýrivaxta á næstu tveimur vaxtaákvörðunarfundum bankans.

 

Reiknað er með að dragi úr viðskiptahalla, en það mun taka tíma og jafnvel gætu frekari fjárfestingaráform í orkufrekum iðnaði og minnkandi útflutningur sjávarafurða haft áhrif. Launahækkanir og miklar verðbólguvæntingar kynda undir verðbólguhættu. Einnig hefur raunvaxtamunur við útlönd dregist saman. Þó að Credit Suisse búist við því að raunvaxtamunur aukist á ný á næstu mánuðum þá vinnur hækkandi verðbólga á Íslandi og vaxtahækkanir í viðskiptalöndum gegn þeirri þróun.

 

Á næstu mánuðum gerir Credit Suisse því ráð fyrir að hætta sé á frekari lækkun krónunnar. Skýr merki merki um að verulega dragi úr ójafnvægi í íslenska hagkerfinu myndu hins vegar styðja við krónuna.


Sjá hér greiningu Credit Suisse.