Bretar myndu spara 9 milljarða punda ef eftirlaunaaldur yrði 70 ár

Ráðgjafar ríkisstjórnar Breta hvetja hana til að hækka eftirlaunaaldur hraðar og meira en áformað er og vilja hann verði kominn í 70 ár árið 2046. Slíkt muni greiða fyrir því að ríkið geti staðið við skuldbindingar sínar og létta auk þess byrðum af skattgreiðendum.  

Í nýrri skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers (PwC) er því haldið fram að núverandi áætlanir Breta um að hækka eftirlaunaaldur upp í 68 ár um miðja öldina muni ekki duga til.


Áformað er að hækka eftirlaunaaldur í Bretlandi í 67 ár 2036 en PwC bendir á að 5,2 milljarðar sterlingspunda myndu sparast árlega ef skrefið yrði stigið nú þegar.
Bretar áforma ennfremur að fara með eftirlaunaaldurinn upp í 68 ár 2046 en PwC segir að ef eftirlaunaaldur verði færður upp í 70 ár 2046 sparist um 9 milljarðar sterlingspunda ári eða sem svarar til 0,6% landsframleiðslu í Bretlandi.

 

Með þessu móti væri unnt að spara sem svara til 60% útgjaldaaukningar vegna lífeyrisgreiðslna breska ríkisins á árabilinu 2010-2046 og óþarft væri að hækka skatta til að afla fjármuna fyrir eftirlaunakerfið.

 

Ráðgjafar PwC  segja nauðsynlegt að hvetja fólk til að vinna lengur og þeir vilja breyta viðhorfum á vinnustöðum gagnvart eldra fólki, til að mynda með sérstakri þjálfun fyrir eldri starfsmenn og sveigjanlegri vinnutíma.
Þeir varpa því líka fram að Bretum verði boðnar sveigjanlegri leiðir til sparnaðar til að gera þeim kleift að skipuleggja efri árin án tillits til aldurs og jafnvel vinna í hlutastarfi en vera á eftirlaunum að hluta á móti.

 

Endursagt úr IPE.com 25. febrúar 2010